-0.2 C
Selfoss
Home Fréttir Svar við athugasemdum HSU vegna fréttaflutnings um staðsetningu sjúkrabíla í Rangárþingi

Svar við athugasemdum HSU vegna fréttaflutnings um staðsetningu sjúkrabíla í Rangárþingi

0
Svar við athugasemdum HSU vegna fréttaflutnings um staðsetningu sjúkrabíla í Rangárþingi
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Ég harma það að þurfa að standa í orðaskaki við opinbera stofnun HSU. Get samt ekki látið hjá líða að svara framkvæmdastjórn HSU, þar sem í fréttatilkynningu þeirra er ég vændur um ósannsögli.
Ekkert af því sem birtist í viðtali við mig í Fréttablaðinu og Vísi varðandi m.a. staðsetningu og fyrirkomulag sjúkraflutninga í Rangárþingi er rangt. Hins vegar getur vel verið að þar hafi ekki allar upplýsingar komið fram og ekkert óeðlilegt við það að túlkun Rangárþings eystra og HSU sé mismunandi. Engu að síður tel ég að þær ákvarðanir sem HSU hefur nú tekið til bráðabirgða varðandi fyrirkomulag sjúkraflutninga í Rangárþingi séu ekki nægjanlega vel undirbúnar, kynntar og ekki teknar með öryggi íbúa og gesta svæðisins að leiðarljósi.
Hvað telst gott og nægjanlegt samráð getur verið umdeilanlegt. Í þessu tilfelli tel ég ljóst að það hefði getað verið mun meira.
Eins og fram kemur í fréttatilkynningu HSU fékk Rangárþings eystra fyrst veður af því þann 27. júní 2018, að svo gæti farið að aðstaða sjúkraflutninga flyttist frá Hvolsvelli á Hellu. Strax í kjölfarið var óskað eftir því að komið yrði á fundi sveitarstjórnar og HSU vegna þessa máls auk annarra sem þyrfti að ræða. Erfiðlega gekk að finna fundartíma en það náðist þó og var fundur haldinn 1. nóvember 2018, en því miður sá forstjóri HSU sér ekki fært að mæta. Á þessum fundi lýsti sveitarstjórn áhyggjum sínum af þeim fyrirætlunum að flytja aðstöðuna. Með flutningnum teljum við ekki vera horft til öryggis íbúa og ferðamanna innan svæðisins. Í fréttatilkynningu HSU er því haldið fram að flutningurinn verði þess valdandi að viðbragð til austurs minnki einungis um 5-6 mínútur. Miðað við mína reynslu við forgangsakstur hjá lögreglunni og Brunavörnum Rangárvallasýslu tel ég það mjög varlega áætlað. Ætla svo sem ekki að skjóta á neinar tölur, en miðað við þá umferðaraukningu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, ástand vega og færðina sem getur verið breytileg oft á sólarhring er knappt að 5-6 mínútur sé um að ræða. Einnig er rétt að benda á að bifreið í forgangsakstri getur líka valdið talsverðri hættu í umferðinni.
Á umræddum fundi voru ýmsar leiðir ræddar og m.a. bauð Rangárþing eystra upp á íbúðarhús fyrir starfsmenn sjúkraflutninga á vakt, sem staðsett er bakvið þáverandi húsnæði sjúkraflutninga í eigu Rauða krossins. Einnig var rætt á fundinum að Rauði krossinn lýsti sig tilbúin að gera endurbætur á húsnæðinu, þegar fyrir lægi hvað þyrfti að gera. Fram kom að HSU myndi athuga þessa kosti og vera svo í sambandi við sveitarfélagið um hvort af þessu gæti orðið. Einnig voru ræddar lausnir varðandi geymslu á sjúkrabílum ef þeir þyrftu að víkja á meðan á endurbótum stæði.
Það var skilningur sveitarstjórnar eftir fundinn að málið yrði skoðað og haft samráð um næstu skref. Það gerðist hins vegar ekki og það næsta sem við heyrðum af málinu, sem var í desember, var að flutningar hefðu farið fram.
Á fundi fulltrúa HSU og sveitarstjórnar þann 15. janúar sl. kom fram að fulltrúar frá HSU hefðu skoðað umrætt húsnæði sem stóð til boða, en teldu það ekki geta gengið út frá aðgengi, þar sem þyrfti að fara á milli lóða og yfir runna. Við umrædda skoðun á húsakosti var ekki óskað eftir aðkomu sveitarfélagsins eða möguleikar á breytingum ræddir. Það þykir sveitarstjórn miður og hefði hún gjarnan viljað leggja sitt af mörkum við úrlausn málsins.
Að mati sveitarstjórnar var ákvörðun um flutning tekin án þess að aðrir kostir væru skoðaðir.
Sveitarstjórn lýsir sig engu að síður tilbúna til góðs samstarfs og jákvæðra samskipta við HSU við framtíðarskipulag sjúkraflutninga í Rangárþingi. Allar ákvarðanir í þessu máli sem og öðrum eiga að vera teknar með öryggi fólks að leiðarljósi.

F.h. Rangárþings eystra, Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri.