7.3 C
Selfoss
Home Fréttir 82,2% Sunnlendinga lesa Dagskrána í hverri viku

82,2% Sunnlendinga lesa Dagskrána í hverri viku

0
82,2% Sunnlendinga lesa Dagskrána í hverri viku

Dagana 10. október til 18. desember sl. framkvæmdi Gallup könnun á lestri Dagskrárinnar á Suðurlandi. Sambærileg könnun var gerð fyrir þremur árum. Alls svöruðu 783 íbúar á Suðurlandi könnuninni að þessu sinni eða 48,2% úrtaksins.

Þegar spurt var hvort fólk hefði lesið Dagskrána á síðastliðnum sjö dögum svöruðu 82,2% játandi sem er svipað hlutfall og fyrir þremur árum. Lestur eldri aldurshópa er heldur meiri en yngri, líkt og í síðustu könnun. Lestur fólks 45 ára og eldri er yfir 89% en mest hjá aldurshópnum 55–64 ára eða 93%. Lestur hjá aldurshópnum 25–44 ára er um 80%. Lestur hjá yngsta aldurshópnum þ.e. 18–24 ára er 62% og hefur aukist um rúm 7% frá síðustu könnun. Lestur Dagskrárinnar er nánast eins alls staðar á Suðurlandi og lítill munur er á lestri þegar tekið er mið af fjölskyldutekjum eða menntun.

Þegar spurt var hversu ánægt eða óánægt fólk væri með Dagskrána svöruðu 75,5% mjög ánægð og frekar ánægð. Er það um 9% aukning frá síðustu könnun. Hvorki né svöruðu 20,8% og 3,7% voru óánægð. Flestir voru ánægðir með blaðið á Selfossi eða um 83%. Tölur fyrir önnur svæði voru frá 68% til 74%.

Varðandi efni Dagskrárinnar voru langflestir ánægðir með fréttir og efni af svæðinu. Einnig sögðu margir að Dagskráin væri gott og vandað blað sem fjallaði um ýmsa viðburði og flytti ýmsar gagnlegar upplýsingar.

Örn Guðnason ritstjóri Dagskrárinnar.

„Það er ánægjulegt að sjá hve mikilla vinsælda Dagskráin nýtur hjá Sunnlendingum. Það að yfir 82% íbúa skuli lesa blaðið er held ég einstakt og örugglega enginn annar prentmiðill með álíka lestur á svæðinu. Þetta undirstrikar enn frekar sterka stöðu blaðsins sem auglýsingamiðils. Margir auglýsendur hafa nýtt sér það enda fer Dagskráin inn á öll heimili og í öll fyrirtæki á Suðurlandi, auk þess að liggja frammi í verslunum og víða á opinberum stöðum,“ segir Örn Guðnason ritstjóri blaðsins.

„Við sem vinnum á Dagskránni eru líka ánægð með að fleiri eru ánægðir með blaðið en í síðustu könnun. Það gefur okkur vísbendingum um að við séum á réttri braut. Eins og gefur að skilja hefur fólk mismunandi skoðanir á efni blaðsins. Sumum finnst t.d. íþróttir full fyrirferðarmiklar á meðan öðrum finnst þær ómissandi. Þar er lykilatriðið, eins og reyndar á við um flest allt efni blaðsins, að birta fréttir úr héraðinu sem ekki birtast í öðrum prentmiðlum. Við höfum líka lagt áherslu á að blaðið sé opið fyrir öllum fréttum og skoðunum af svæðinu. Margir eru duglegir að senda okkur pistla og myndir og fyrir það erum við þakklát. Auglýsingar eru alltaf stór hluti blaðsins eins og hjá flest öllum blöðum sem dreift er frítt til íbúa. Við munum halda áfram að þróa blaðið og stefnum á að gera það enn betra,“ segir Örn.