7.1 C
Selfoss

Vegan jóla Wellingtonsteik

Vinsælast

Erlendur Eiríksson, yfirkokkur Skyrgerðarinnar í Hveragerði, bíður lesendum Dagskrárinnar og dfs.is upp á vegan jóla Wellington steik.

Hnetusteikin
150 gr maukaðir sólþurrkaðir tómatar
150 gr maukuð þistilhjörtu
150 gr heslihnetur, grófmalaðar í matvinnsluvél
150 gr möndlur eða kasjúhnetur eða furuhnetur, grófmalaðar í matvinnsluvél
150 gr rifinn plöntuostur
50 gr plöntu parmesanostur, rifinn
150 gr soðnar kjúklingabaunir
1,5 tsk karrý
1 tsk paprikuduft
smá salt og pipar
góður hnefi af ferskum kryddjurtum, koríander, steinselja.

Best er að hnoða steikina í hrærivél með spaðanum eða bara í höndunum. Sett í eldfast mót og bakað við 180°C í 15–20 mín. Látið kólna.

Trönuberjasósa
300 gr trönuber fersk eða frosin
1 tsk engifer, rifið
1 lítil kanilstöng
1 epli, rifið
200 gr flórsykur
240 ml appelsínusafi

Öllu blandað saman í pott og soðið í ca. 15 mínútur. Hrærið oft í svo að það brenni ekki við í pottinum. Kælt og sett í krukku.

Sveppa duxelle
1 box sveppir, sneiddir
1/2 rauðlaukur, smátt saxaður
200 gr kastaníuhnetur, saxaðar (má sleppa)
1/2 tsk timian
salt og pipar
1/2 bolli brauðraspur
Vegan smjör eða olía til að steikja upp úr

Allt steikt á pönnu, kryddað til og kælt.

 

Steikin sett saman
Smjördeig. Oftast er smjördeig Vegan þar sem ekki er notað venjulegt smjör heldur smjörlíki. Ég notaði smjördeigið sem fæst í Bónus og það virkaði bara mjög vel. Takið smjördegið og rúllið því út með kökukefli á vel hveitistráðu borði. Best er að setja hnetusteikina á útrúllað smjördeig og svo annað til að breiða yfir það.

Setjið hnetusteikina á smjördegið, sveppa duxellið þar ofaná og trönuberjasósuna þar yfir. Penslið degið með plöntumjólk, svo að límist vel saman, og setjið annað smjördeig yfir. Penslið með plöntumjólk og setjið skraut rendur yfir ef þið eruð í stuði. Skerið kantana og lagið til og þrýstið með gaffli allan hringinn.

Bakið í ofni á 200°C í 12–15 mínútur eða þar til degið er orðið fallega brúnt og brakandi fallegt. Berið fram með trönuberjasósunni og góðri brúnni sósu, Knorr brúnsósugrunnurinn er vegan þannig að það er hægt að gera flotta sveppa eða rauðvínssósu með honum.

Nýjar fréttir