2.3 C
Selfoss

Fjallað um ósk um stuðning vegna undirbúnings Landsmóts hestamanna 2020

Vinsælast

Á fundi byggðaráðs Rangárþings ytra sem haldinn var 5. desember sl. var tekin fyrir beiðni frá stjórn Rangárbakka ehf. um að sveitarfélagið veiti Rangárbökkum styrk í formi vinnuframlags markaðs- og kynningfylltrúa til aðstoðar og undirbúnings Landsmóts hestamanna 2020 sem haldið verður á Rangárbökkum við Hellu. Lagt var til að byggðarráð leggi til við sveitarstjórn að verða við beiðninni sem skilgreint væri 25% starf árið 2019.
Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum meirihlutans gegn einu atkvæði fulltrúa Á-listans.

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, fulltrúi Á-lista í byggðarráði, sem var á móti beiðninni lagði fram eftirfarandi bókun:

Undirrituð verður að hafna beiðni Rangárbakka ehf. um að sveitarfélagið Rangárþing ytra styrki einkahlutafélagið vegna Landsmóts hestamanna 2020 í formi þess að launþegi Rangárþings ytra vinni 25% af sínu starfi fyrir einkahlutafélagið allt árið 2019. Málið er fordæmalaust.

Helstu rök mín gegn samþykki þessarar beiðni eru:
* Styrkbeiðandi er einkahlutafélag í eigu fyrirtækja, hestamannafélaga og sveitarfélaga. Tel ég það afar slæmt fordæmi að einkahlutafélög geti sótt um slíka styrki á forsendum sem þessum.
* Ef styrkbeiðni þessi verður samþykkt tel ég að sett verði fordæmi sem erfitt verður að vinda ofan af ef gæta á jafnræðis við önnur fyrirtæki sem gætu sótt um álíka styrki í framtíðinni.
* Ekki liggur fyrir í gögnum hve umbeðinn styrkur er hár í krónum talið.
* Ekki liggur fyrir í gögnum hver áætlun tekna og útgjalda er vegna Landsmóts 2020.
* Full þörf er á 100% starfshlutfalli markaðs- og kynningarfulltrúa hjá sveitarfélaginu nú sem áður.
Ég óska þess að Landsmót hestamanna 2020 takist vel en tel eðlilegast að Rangárbakkar ehf. sæki um fjárstuðning til allra eigenda félagsins til að ráða starfskraft við undirbúning landsmótsins. Ég vil tryggja sveitarfélaginu áfram öfluga vinnu markaðs- og kynningarfulltrúa í fullu starfi fyrir sveitarfélagið.

Nýjar fréttir