8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Eftir nokkur ár ætti bókin svo að verða eins og hrafnslaupurinn, full af minningadjásnum

Eftir nokkur ár ætti bókin svo að verða eins og hrafnslaupurinn, full af minningadjásnum

0
Eftir nokkur ár ætti bókin svo að verða eins og hrafnslaupurinn, full af minningadjásnum
Halla Ósk Heiðmarsdóttir.

Fyrirbærið minningalaupur, er hugarfóstur Höllu Óskar Heiðmarsdóttur. Bókin Ár eftir ár sem bókaútgáfan Sæmundur gefur út núna fyrir jólin er nýlent í bókabúðir um land allt. Í bókinni gefst fólki færi á að safna minningum á dagsettar blaðsíður, eins lengi og plássið leyfir.

Hvernig virkar þetta Halla Ósk?
„Þetta virkar svipað og minningarnar á Facebook. Það er einn mánaðardagur á hverri blaðsíðu, ekkert meira. Hugmyndin er að bókin endist árum saman, ólíkt dagbókum sem fara gjarnan hálfskrifaðar í ruslið um áramót. Á hverjum degi skrifum við niður minningar eða atvik, árlega á sömu síðu. Þannig fáum við tækifæri til að líta til baka og rifja upp fortíðina og auðvitað má líka skrifa eitthvað sem gerðist fyrir löngu. Eftir nokkur ár ætti bókin svo að verða eins og hrafnslaupurinn, full af minningadjásnum.“

Halla Ósk er ekki ókunn því að fanga dýrmæt augnablik en hún hefur undanfarin ár meðal annars starfað sem áhugaljósmyndari. Auk þess er hún lífstílsþerapisti í þerapíunni Lærðu að elska þig. Er það úr þessum jarðvegi sem hugmyndin að bókinni sprettur?
„Að sjálfsögðu, meðal annars. Bókin er stór hluti af mér og því sem ég stend fyrir. Hugmyndin kviknaði þó fyrst og fremst þegar ég varð móðir árið 2015. Þá varð mér svo fljótt ljóst hversu fljót við erum að gleyma, einmitt þessum litlu hversdagslegu augnablikum sem eru dýrmætustu minningarnar. Þegar maður sest niður og skrifar minningar dagsins og lítur um leið yfir augnablik liðinna ára skapast tilfinning fyrir heildarmyndinni og vægi hvers augnabliks eykst. Litlu augnablikin eru oft mikilvægasti hluti þess sem gerir okkur að því sem við erum og í hraðanum sem fylgir nútímasamfélagi missum við oft sjónar á því. Hvort sem við erum foreldrar að kynnast börnum, hlauparar að vinna afrek, rithöfundar að semja tímamótaverk eða bændur að skrá niður ræktunarframfarir.“

Ár eftir ár er fyrsta bók Höllu Óskar og meðgangan hefur verið nokkuð löng. Er komin einhver reynsla á notkun hennar?
„Það liggur mikil hugmyndavinna þarna að baki og margar tilraunir með útfærslur. Auk þess fékk ég nokkra útvalda til þess að prófa þessa aðferð. Út úr því komu prufublaðsíður og nokkrar þeirra má sjá í bókinni. Skemmtilegast í því ferli var að sjá á hversu marga vegu er hægt að nota bókina. Það styrkti mig líka í trúnni á að þetta gæti verið eitthvað sem fólk myndi nota.“

Nú líður að jólum og bókin er með seinni skipum til landsins, hvar verður hægt að nálgast hana?
„Engar áhyggjur, hún er komin í allar helstu bókabúðir og að sjálfsögðu til í Bókakaffinu. Það munu allir sem vilja geta nálgast hana fyrir jól. Fimmtudagskvöldið 13. desember verður útgáfu hennar fagnað í Bókakaffinu kl. 20. Boðið verður upp á rautt, hvítt og bílstjóradrykki. Ég mun taka lagið með fjölskyldunni minni og bókin verður á sérstöku tilboðsverði í tilefni kvöldsins.“

Er þetta jólagjöfin í ár?
„Jólagjöf, afmælisgjöf eða áramótagjöf, það skiptir í raun ekki máli. Þú getur byrjað að skrifa á hvaða degi sem er, hvenær sem er. Allt eftir því hvernig þú vilt byggja þinn minningalaup.“