11.7 C
Selfoss

Síðasta listasmiðja ársins og síðustu sýningardagar

Vinsælast

Komið er að lokadögum sýningarinnar Halldór Einarsson í ljósi samtímans, í Listasafni Árnesinga í Hveragerði, þar sem verk Halldórs, sem fæddur er 1893, kallast á við verk Önnu Hallin, Birgis Snæbjörns Birgissonar, Guðjóns Ketilssonar og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur sem fædd eru 60-70 árum síðar. Í verkum sínum fást listamennirnir við ýmsar hugmyndir og miðla þeim í margvísleg efni, en fyrirferðamestur er þó viðurinn og handverkið sýnilegt. Við nánari skoðun vekja mörg verkanna áhugaverðar og einnig áleitnar spurningar um vald, náttúru, túlkun, tákn og erindi myndlistar í hvers samtíma. Í nýlegri umfjöllun um sýninguna í Morgunblaðinu þann 6. desember gefur rýnir henni 4 stjörnur og lýkur umfjölluninni með orðunum „…vönduð og áhugaverð sýning, þar sem ný og nýleg verk samtímalistamanna varpa ferskri sýn á eldri verk Halldórs“. Síðustu sýningardagarnir eru 13.–16. desember.

Þann 16. desember, síðasta opnunardag ársings í Listasafni Árnesinga, fer einnig fram síðasta listasmiðja þessa árs milli kl. 14:00 og 16:00. Þar gefst börnum og fjölskyldum þeirra tækifæri til þess að heimsækja safnið og eiga góða stund saman við samræður og sköpun. Viðfangsefnið verður fjölbreitt pappírsklipp að hætti smiðjustjórans Kristínar Þóru Guðbjartsdóttur sem er þekkt fyrir skemmtilegar pappírs úrvinnslur. Jólagluggi Hveragerðis fyrir 16. desember verður staðsettur í Listasafni Árnesinga og tákn hans er sjálfur rauði liturinn, litur sem tengist sterkt jólum, sem og ást og hlýju. Auk þess að vinna eitthvað fyrir sjálfa sig verður börnum og fjölskyldum þeirra líka boðið að vinna gluggaskraut í safnið með rauðum pappír. Listasmiðjurnar hafa notið stuðnings Uppbyggingasjóðs Suðurlands og eru komnar til þess að vera. Allt efni og leiðsögn er á staðnum og þátttaka er ókeypis.

Við opnum safnið á ný með nýrri sýningu þann 12. janúar. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir.

Nýjar fréttir