1.1 C
Selfoss

Skemmtilegt samstarf nemenda í FSu

Vinsælast

Nemendur í leiklist og nemendur í íslensku í skapandi skrifum í Fjölbrautaskóla Suðurlands unnu saman á haustönn. Hefð er komin á þetta samstarf en þá skrifa nemendur í skapandi skrifum stutt leikverk sem nemendur í leiklist fá í hendur, útfæra, æfa og setja á svið. Afurðin varð svo lítil leiklistarhátið sem haldin var í hinum ýmsu rýmum skólans eins og í gryfju í miðrýminu, í kjallara skólans, á bókasafni, fyrir framan einstakar stofur og að sjálfsögðu á sal skólans Gaulverjabæ.

Frumsýnd voru sjö ný íslensk verk. Efnistök voru fjölbreytt og vitnuðu um heilmikla hæfileika. Umfjöllunarefnið var margs konar þar á meðal ástir og örlög í frystihúsi, samtal um fisk í skóbúð, togstreita við að fara að heiman, að koma út úr skápnum og gömul hjón að karpa eftir ævilangt hjónaband. Góður rómur var gerður að þessari uppsetningu sem braut aðeins upp hefðbundið skólastarf. Kennararnir Guðfinna Gunnarsdóttir og Jón Özur Snorrason stóðu að þessari samvinnu.

Nýjar fréttir