-8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Fór í glerblástursnám til Svíþjóðar og rekur nú gallerí í Flóahreppi

Fór í glerblástursnám til Svíþjóðar og rekur nú gallerí í Flóahreppi

0
Fór í glerblástursnám til Svíþjóðar og rekur nú gallerí í Flóahreppi
Fanndís Huld Valdimarsdóttir glerlistakona í Gallerí Flóa. Mynd: GPP.

Það leynast víða faldar perlur sem gaman er að kynna sér. Við Suðurlandsveginn, í gömlu Þingborg í Flóahreppi, leynast svoleiðis perlur í orðsins fyllstu merkingu. Í vinnustofu Fanndísar Huldar Valdimarsdóttur, listakonu, má finna margt fallegra muna en hún vinnur mest í gler. Hún vinnur líka í keramik og býr til eigin sápur og kerti. Í versluninni leynist auk þess ýmislegt sem ekki er hægt er að kaupa. Eldmóðurinn og áhuginn fyrir listinni leynir sér ekki og Fanndís hrífur blaðamann með í ferðalag um heim glerlistarinnar á augabragði með smitandi áhuga, eldmóði og gleði.

Sagði upp sem þjónn og fór í glerblástursnám
Aðspurð að því hvers vegna hún hafi valið glerblástursnámið segir Fanndís brosandi: „Ég hef alltaf haft rosalegan áhuga á gleri. Það var þannig að ég var orðin leið á að vinna sem þjónn, þó ég hafi menntað mig til þjóns. Mig vantaði tilbreytingu og sat akkúrat fyrir framan tölvuna og sló í leitarstikuna „glerblástur“ og upp kom þessi skóli í Svíþjóð. Ég hugsaði með mér að láta bara vaða, kýla á drauminn. Ef ég kæmist inn myndi ég bara hætta í vinnunni og fara út í nám,“ segir hún hlæjandi. „Til að gera langa sögu stutta, þá komst ég inn og lærði glerblástur í þrjú ár. Ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Þrátt fyrir að hafa verið í góðu starfi á sínum tíma þá er þetta besta ákvörðun sem ég hef tekið. Þetta var algerlega gert fyrir mig því mig vantaði ævintýri, tilbreytingu og langaði til að gera eitthvað annað í lífinu. Og stundum þarf bara að taka af skarið og lifa lífinu lifandi.“

Atvinnulaus, ólétt og hentist af stað í verslunarrekstur
„Þegar ég byrjaði með galleríið fyrir þremur árum var ég atvinnulaus og vissi ekki hvað ég ætti af mér að gera. Svo var ég kasólétt af dóttur minni en ákvað þá að hendast af stað með búðina. Við vorum hérna að hluta til í fæðingarorlofinu, á móti því sem sagt. Síðan þá hefur hefur þetta dafnað ágætlega og stækkað.

Aðspurð um sérstöðu verslunarinnar segir Fanndís: „Hér inni er hver einasti hlutur handgerður af mér. Glerið er unnið hér inni á litlu verkstæði fyrir innan og engar perlur eru algerlega eins. Ferðamenn sem hingað koma eru mjög ánægðir að komast í beina tengingu við framleiðanda munanna. Það er mikilvægur hluti af þeirra upplifun. Það er kannski meiri saga á bakvið munina og það skiptir máli. Ferðafólkið sér að þetta er unnið af mér og er því gegnheilt íslenskt handverk.“ Aðspurð um íslenska viðskiptavini segir hún: „Íslendingarnir eru að uppgötva þetta og fara að átta sig á að það eru ekki allar glerperlur frá Kína,“ segir hún og brosir kankvís. „Það er kannski örlítið fjarstæðukennt að það sé til Íslendingur sem er að handgera svona perlur og muni, en þetta vinnur sig inn hjá fólki og ég finn fyrir auknum áhuga.“

Víkingaperlur Fanndísar eru unnar með gamalli aðferð. Mynd: GPP.

Glerperlurnar
Mest er af glermunum hér inni, einnig keramik og fleira. Hvað er það sem þú aðallega einbeitir þér að? „Ég sérhæfi mig í svokölluðum „Víkingaperlum“. Ég sel þær bæði sem tilbúna skartgripi og í lausasölu fyrir fólk til að setja saman sjálft í eigin skart. Ég er sú eina hér á landi sem er að endurgera íslenskar víkingaperlur sem hafa fundist hér á landi við fornleifauppgröft. Perlurnar vinn ég bæði með nútímaaðferðinni, sem er gaslampi, og með gömlu aðferðinni. Ég er sem sagt í víkingafélagi hér á svæðinu og er ásamt fornleifafræðingi sem er í félaginu líka að endurgera ofna sem fundist hafa í uppgreftri frá sögulegum tíma. Við vonumst til að finna svona ofn hér á Íslandi til að herma eftir, en við notumst við danska fyrirmynd. Þarna er ég að viðhalda handverki sem var og mér finnst það mikilvægt, það verður einhver að viðhalda þessu.“ Aðspurð um vöruúrvalið, sem er talsvert, segir Fanndís: „Ég er með allt frá perlum sem fók getur föndrað með sjálft yfir í dýrari muni og skartgripi í öllum verðskölum. Hugmyndaflugið fær bara að ráða.“

Frá tilfinningu að fullunnu verki
Þú ert augljóslega mjög skapandi einstaklingur. Hefur þú alltaf verið svona skapandi? „Frá því ég var krakki hef ég haft mikla þörf fyrir að skapa eitthvað með höndunum, er eiginlega háð því. Það er líka svo mikil tjáning á tilfinningalífinu að geta unnið beint í efni og það hefur verið mín útrás. Þegar ég er að vinna munina byggja þeir svo mikið á tilfinningalífinu hjá mér og líðaninni bara þann daginn. Það er það sem gerir þetta svo skemmtilegt og áhugavert. Þetta verður svona sköpunarferli sem fer í gang og maður endar svo með eitthvað í höndunum sem er fullunnin vara. Það lengsta sem ég hef setið við einn hlut var þrír tímar, en það er ekkert hægt að stoppa því glerið verður að vera á vissu hitastigi allan tímann.“