-5 C
Selfoss

Brunavarnir Árnessýslu og Eldvarnarbandalagið gerðu með sér samning um auknar eldvarnir í grunnskólum

Vinsælast

Brunavarnir Árnessýslu og Eldvarnarbandalagið gerðu fyrir skömmu með sér samning um aukið samstarf. Markmið hans er að efla eldvarnir í stofnunum sveitarfélaga á starfssvæði Brunavarna Árnessýslu.

Haldinn var sérstakur fundur þar sem skrifað var undir samninginn. Á fundinn voru mættir skólastjórnendur flestra grunnskólanna á starfssvæði BÁ ásamt öðrum hagsmunaaðilum. Undir samninginn rituðu Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnarbandalagsins, Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri BÁ og Björn Kalsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar.

Markmiðið að auka enn frekar eldvarnareftirlit innan stofnana á svæði Brunavarna Árnessýslu. Grunnskólar á starfssvæði BÁ munu ríða á vaðið og innleiða verkefnið. Frá og með 15. janúar 2019 munu grunnskólarnir vera með virkt eigið eldvarnareftirlit, eldvarnarfulltrúa og fara yfir gátlista frá Eldvarnarbandalaginu mánaðarlega. Úttekt á verkefninu verður svo að 12 mánuðum liðnum og verður í höndum BÁ og Eldvarnarbandalagsins.

Innleiðing á verkefninu verður með þeim hætti að grunnskólarnir kjósa sér einn eldvarnarfulltrúa og annan til vara. Fulltrúarnir munu svo sinna mánaðarlegu eldvarnareftirliti við þann skóla sem þeir vinna við. Brunavarnir Árnessýslu munu halda sérstök námskeið fyrir eldvarnarfulltrúana þannig að þeir fái nauðsynlega þekkingu til að sinna starfinu af kostgæfni. Að auki verður eldvarnarnámskeið á vinnustaðnum þar sem allir starfsmenn fá m.a. kennslu í eldvörnum. „Það er verkefni alls starfsfólks að koma að virkum eldvörnum,“ sagði Garðar í fyrirlestri sínum.

Eldvarnarbandalagið var stofnað sumarið 2010 sem samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir. Aðilar að Eldvarnarbandalaginu eru m.a. tryggingafélög, Mannvirkjastofnun, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og fleiri hagsmunaaðilar. Bandalagið hefur gefið út greinargott leiðbeiningarhefti, „Eigið eftirlit með eldvörnum“. Handbókin mun nýtast skólastjórnendum við að ýta verkefninu af stað og koma á eldvarnareftirliti í sínum skóla.

Nýjar fréttir