-5 C
Selfoss
Home Fréttir Framkvæmdir við frágang göngustíga á Skógaheiði

Framkvæmdir við frágang göngustíga á Skógaheiði

0
Framkvæmdir við frágang göngustíga á Skógaheiði
Á Skógaheiði. Mynd: Umhverfisstofnun.

Þótt vetur sé genginn í garð er unnið af kappi við Skógafoss við frágang á göngustíg að Skógaheiði. Fyrirtækið Stokkar og Steinar sér um hönnun og framkvæmd á göngustígnum. Stefnt er að lokum framkvæmda á næstu dögum.

Gera má ráð fyrir einhverjum takmörkunum á umferð á Skógaheiði á meðan framkvæmdum er ólokið. Þær eru fyrsti áfangi í uppbyggingu og lagfæringu á gönguleiðinni um Skógaheiði sem hófst fyrir um ári. Umtalsvert jarðvegsrof hafði skapast í og við göngustíg meðfram Skógaá og tengist fjölgun ferðamanna. Svæðið er illa farið vegna ágangs og mjög mikilvægt að bregðast við sem fyrst til að stoppa jarðvegsrof meðfram göngustíg á Skógaheiði.

Í fyrsta áfanga framkvæmdanna er unnið að uppbyggingu göngustígar frá útsýnispalli ofan Skógafoss að Fosstorfufossi, á um 650 metra löngum kafla. Í næsta áfanga verður haldið áfram lagfæringu á göngustíg þar sem frá var horfið. Búið er að gera áætlun um lagfæringu á um 3 km kafla meðfram Skógaá.

Undanfarin tvö ár hefur svæðinu ofan við Skógafoss verið lokað á vorin til að draga úr álagi á viðkvæmasta tímanum þegar frost fer úr jörðu og gróður tekur við sér.