0.6 C
Selfoss

Sala á kærleiksenglum og kortum hafin

Vinsælast

Samband sunnlenskra kvenna hefur hafið sölu á kærleiksenglum og jólakortum ásamt mynd af verki eftir Siggu á Grund. Kærleiksenglar, myndin og jólakort verða til sölu hjá kvenfélögunum á sambandssvæðinu á næstu vikum og einnig í móttöku HSU. Allur ágóði af sölu þessara muna rennur óskiptur í Sjúkrahússjóð SSK.

Sjúkrahússjóður SSK var stofnaður árið 1952 og frá upphafi hefur tilgangur sjóðsins verið að stuðla að uppbyggingu sjúkrahúss fyrir Sunnlendinga og efla starfsemi þess. Til margra ára var jólakortasala aðaltekjuöflun sjóðsins en síðustu fjögur ár hefur sala á litlum glerenglum bæst við. Fyrsta árið urðu til tvær gerðir af englum en eftir það hefur einn nýr bæst við á hverju ári.

Kærleiksengillinn er bæði falleg og gildishlaðin gjöf sem hentar vel til tækifærisgjafa við ýmis tilefni. Þetta er fimmta árið sem kærleiksenglar eru boðnir til sölu fyrir jólin og þykja mörgum þeir hafa ákveðið söfnunargildi. Sunnlenskt listafólk hefur hannað og framleitt englana öll árin, en vinna við pökkun og umsýslu þeirra er í höndum kvenfélaga innan SSK. Kærleiksengill ársins 2019 er hannaður og framleiddur af Fanndísi Huld Valdimarsdóttur í Gallerý Flóa. Einkunnarorð hans eru „Lengi býr að góðu hjarta”. Umsjón með englaverkefninu í ár höfðu Kvenfélögin þrjú í Flóanum auk félaganna á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Jafnframt verða ný kort til sölu, bæði jólakort með prentuðum texta og einnig án texta, sem henta vel sem tækifæriskort. Kortið í ár prýðir gullfalleg mynd „Vetrargjöf” eftir Gunnhildi Jónsdóttur Kvenfélaginu Bergþóru í Vestur -Landeyjum.

á hefur fjáröflunarnefnd SSK látið setja karton utan um fallega mynd af útskurðarverki eftir Siggu á Grund sem nefnist „Verðandi móðir”.

Kærleiksenglar, myndin og jólakort verða til sölu hjá kvenfélögunum á sambandssvæðinu á næstu vikum og einnig í móttöku HSU. Allur ágóði af sölu þessara muna rennur óskiptur í Sjúkrahússjóð SSK.

Frá árinu 1999 hefur Sjúkrahússjóður SSK styrkt HSU um vel á þriðja tug milljóna króna til kaupa á tækjum og áhöldum. Á þessu ári nam andvirði gjafa úr sjóðnum til HSU rúmlega þremur milljónum króna. Félagskonur í kvenfélögunum hafa einnig um árabil gefið handunna muni fyrir öll börn, sem fæðast á HSU og hafa þær gjafir verið vel þegnar.
Þess má geta að kvenfélögin innan SSK hafa að auki gefið Heilbrigðisstofnun Suðurlands margar veglegar gjafir til viðbótar ásamt því að kvenfélögin styðja við ýmsa samfélagstengda starfsemi á sínum félagssvæðum, öldrunarheimili, skóla og fleira.
Það er von okkar að Sunnlendingar og aðrir velunnarar hugsi hlýlega til Kvenfélaganna, og styrki heilbrigðisþjónustu í heimabyggð með kaupum á kærleiksenglum og kortum.

Nýjar fréttir