1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Lestur er lykillinn að ævintýrum

Lestur er lykillinn að ævintýrum

0
Lestur er lykillinn að ævintýrum
Elísabet Harðardóttir.

Elísabet Helga Harðardóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er Húnvetningur að ætt og uppruna en hefur búið á á Selfossi frá 1982. Hún er myndlistarkennari og eftir nám hóf hún kennslu í Sandvíkurskóla og síðar Fjölbrautaskóla Suðurlands og starfar þar enn. Hún á tvö börn með eiginmanni sínum Valdimar Heimi Lárussyni og tvö barnabörn. Tómstundir fjölskyldunnar voru lengi framan af notaðar til að stunda hestamennsku en á seinni árum einnig í ferðalög á tveimur jafnfljótum um fjöll og firnindi.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Norrænir Skerjagarðssakamálahöfundar þekja náttborðið, Camilla Läckberg, Viveca Sten, Johan Theorin ásamt Jussi Adler Olsen. Hálfnuð með eina þeirra vissi ég hver sökudólgurinn var. Svona er að vera gleymin en þrjóskast samt við. Tvær bækur liggja þar líka, önnur ólesin eftir breskan höfund, hin er Konan í glugganum eftir bandaríska höfundinn A. J. Finn. Athyglisverð innsýn í huga manneskju með víðáttufælni. Vel skrifaðar sakamálasögur færa okkur ekki bara fléttuna í kringum glæpinn heldur persónur, hugarheim og umhverfi sem gaman er að gleyma sér í. Á náttborðinu liggur líka bók sem ég keypti mér og ætla að vera lengi að lesa. Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Fyrsta verkið var að lesa ljóðin á spássíunum og spreyta sig á fornletrinu. Svo man ég ekkert hvar ég var og verð að byrja upp á nýtt. Áhuginn á Jóni kviknaði við lestur Rökkurbýsna eftir Sjón, sögulegrar skáldsögu þar sem Jón lærði er fyrirmyndin og af lestri Ariasman eftir finnska höfundinn Tapio Koivukari um Baskavígin á Vestfjörðum kom Jón lærði þar lítið eitt við sögu. Lýsingarnar á þessum hagleiks og andans manni teiknandi tól og tæki um borð í glæsilegum skipunum og nemandi tungu þeirra aðkomnu. En það eru víðar bækur en á náttborðinu. Lesturinn með ungviðinu verður að teljast með. Gagn og gaman, Dúbbi, Lína hæna, Hulda Vala, Snuðra og Tuðra, Óðfluga . . . og svo má lengi telja. Það er með miklu stolti sem ég get sagt frá því að mín var getið í sumarannálum nöfnu minnar sem hún skrifaði í Sunnulækjarskólanum nú á haustdögum en með því skemmtilegasta sem hún tíundaði var lestur með ömmu.

Hvers konar bækur höfða til þín?
Það er gaman að lesa bók sem kemur á óvart vegna þess hve góð hún er. Skurðir í rigningu eftir Jón Kalman Stefánsson er dæmi um það. Eftir lestur hennar velti ég vöngum hvers vegna ég hefði ekki heyrt neitt um þennan höfund og las þann þríleik allan. En nú kemur Jón Kalman ekki lengur á óvart, verðlaunaður höfundurinn. Ævintýri og fantasíur fyrir unga jafnt sem aldna hafa aðdráttarafl, einnig bækur um handanheima eftir spámenn eins og Swedenborg, Edgar Cayce og Guðmund Kristinsson. Svo eru það sakamálin og spennusögurnar. Ég geri lítið að því að lesa ljóðabækur og ævisögur en Sesselja á Sólheimum og Ólöf eskimói rötuðu á náttborðið hjá mér. Fjölskyldu- og ættarsögur sem gerast í framandi heimshlutum og ólíkri menningu eða hérlendis á fyrri öldum eru alltaf ákaflega heillandi. Ekki spillir ef áhugasviðið myndlist fléttast þar saman við. Í því efni nefni ég bækurnar um Karítas eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur og Falsarann eftir Björn Th. Björnsson.

Áttu þér uppáhalds barnabækur?
Ég elska náttúrlega Gagn og gaman og er búin að endurnýja kynnin af þeirri bók í tvígang með sitt hvorri ömmustelpunni minni en sakna þess að hafa ekki sögurnar um Litlu gulu hænuna og Sætabrauðsdrenginn við hendina líka.

Ertu alin upp við bóklestur?
Ég var svo heppin að alast upp við sjónvarpsleysi fram á unglingsár og bóklestur var helsta afþreyingin fyrir utan útvarpsleikritin og annað efni í þeim miðli. Aðalsöguhetjurnar á þeim árum voru  músastrákurinn Pipp, Tarsan apabróðir, Beverly Gray, Kim, Grímur Grallari, Adda, Lína Langsokkur, krakkarnir í Ólátagarði, söguhetjur Enid Blyton og fleiri.

Var lesið fyrir þig?
Ég man nú ekki svo langt aftur til þess tíma þegar ég var ólæs en ég tel víst að mamma hafi lesið fyrir okkur og jafnvel pabbi þó að vinnuvika hafi verið löng. Man eftir því að við systurnar lágum einhvern tíma heima í flensu þá stálpaðar og mamma las fyrir okkur ástarsögur.

En hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Kíki stundum í bók á kvöldin, við morgunverðinn með fyrsta kaffibolla dagsins og svo þegar tækifæri gefst í annan tíma þegar ég vil hafa það notalegt.

Hefur bók rænt þig svefni?
Já ég man að Bjarni Harðarson hélt fyrir mér vöku með Svo skal dansa svo eru örugglega fleiri sökudólgar sem ég man ekki eftir. Maður er orðinn svo svefnstyggur í seinni tíð að ekki þarf bók til en þá hjálpar að lesa.

En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ætli það yrðu ekki ljóðabækur eða myndlistarbækur. Ég hef skrifað eina myndskreytta ljóðabók sem gefin var út í einu eintaki á kostnað höfundar í tilefni sjötugsafmælis móður minnar. Aðra hef ég skrifað, myndlistarskýrslu um námsorlofið mitt, einnig myndskreytt og gefin út í heilum sex eintökum líka á kostnað höfundar. Þetta var bara mögulegt vegna þess að betri helmingur minn er bókbindari.