7.3 C
Selfoss

Vetrarstarf Söngsveitar Hveragerðis hafið

Vinsælast

Líflegt vetrarstarf Söngsveitar Hveragerðis er hafið og eru hafnar æfingar fyrir árlega aðventutónleika, sem haldnir eru ár hvert þann 9. desember í Hveragerðiskirkju. Einnig fer kórinn árlega og syngur fyrir gesti Heilsustofnunar NLFÍ og heimilisfólk Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Ási í Hveragerði á Aðventu.

Eftir jól er svo aðal áhersla lögð á æfingar fyrir vortónleika og aðra viðburði, sem standa til í vetur. Sú breyting varð hjá söngsveitinni að Margrét S. Stefánsdóttir tók sér frí vegna annarra starfa í vetur og stjórnar Unnur Birna Björnsdóttir kórnum í hennar stað.
Kórinn hefur víða farið í söngferðalög. Má þar nefna til Ungverjalands, Kanada og til Ítalíu á kóramót, svo fátt eitt sé nefnt. Ekki má gleyma innanlandsferðum sem farnar eru ár hvert. Ber þar hæst Sæluvikur Skagfirðinga, þar sem söngsveitin hefur sungið með karlakórnum Heimi. Síðastliðið vor hélt söngsveitin, undir stjórn Margrétar Stefánsdóttur, og Söngfélag Þorlákshafnar, undir stjórn Örlygs Benediktssonar,  -söngskemmtun í Skyrgerðinni í Hveragerði við miklar vinsældir og komust færri að en vildu. Stefnt er því að endurtaka þá skemmtun í vetur.

Allir áhugasamir um líflegt og skemmtilegt söng- og kórastarf eru velkomnir í Söngsveitina og þá sérstaklega tenórar og bassar. Æfingar eru á þriðjudagskvöldum kl. 19:30 í Hveragerðiskirkju. Áhugasamir geta haft samband við formann kórsins Gunnvöru Kolbeinsdóttur í síma 865 6297 eða söngstjórann Unni Birnu Björnsdóttur í síma 659 1987.

Nýjar fréttir