8.9 C
Selfoss

Gríðarleg tækifæri og mikilvægt að standa saman um uppbyggingu

Vinsælast

Stóra verkefni allra bæjarstjóra og bæjar­fulltrúa er að tryggja velferð sinna samfélaga og fyrst og fremst að veita þá þjónustu sem þeim ber lögum samkvæmt að gera. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, segir það kannski ekki áber­andi en sveitarfélagið sé stærsti atvinnurekandinn á svæðinu. „Við erum stolt af okkar grunnskóla og leikskóla og allri innri gerðinni. Það er eitthvað sem er með þeim formerkjum sem ætíð eru. Atvinnumálin hafa líka ver­ið sett í háan forgang samhliða þess­um skylduverk­efnum,“ segir Elliði.

Höfnin hefur vaxið mikið
Höfnin í Þorlákshöfn hefur verið að vaxa mikið á seinustu árum og er orðin út­- og innflutningshöfn. Hún er jafn­framt sú út­flutningshöfn sem liggur næst höfuð­borg­ar­svæðinu og með stystu siglingu á Evrópu­markað. Þetta hafa inn- og út­flytjendur verið að kveikja hratt á. Ásókn í lóðir og lendur hefur vaxið þar með.
„Við finnum að með frekari vexti og með því að geta tekið á móti stærri og fleiri skipum er nánast bara ímyndunar­aflið eitt sem ræður endinum. Þegar þetta fer svo saman með því að hér í Ölfus­inu erum við með stærsta jarðhita­svæði á landinu og stærstu ferskvatns­lindir á landinu, eigum við gríðarleg tækifæri. Við erum með 730 ferkílómetra af landi í hálftíma fjarlægð frá höfuðborg­ar­svæðinu og klukkutíma fjarlægð frá alþjóðaflugvelli. Við höfum séð tækifær­in mikið hverfast í kringum matvæla­vinnslu.“ Hann bætir við og segir að megninu af öllum kjúklingum í landinu sé t.d. klakið út í Ölfusinu og sennilega sé um 80% af öllum laxeldisseiðum klak­ið út í Ölfusinu. „Nú erum við með nýtt svínabú á teikniborðinu. Það verður til þess að megnið af öllum grísum á Íslandi verður gotið í Ölfusinu. Þannig að við erum orðin vagga matvælaiðnaðar­ins. Þetta sýnir fram á tækifærin. Við sjáum að matvælafyrirtækin og léttiðn­að­arfyrirtæki eru að sækja inn á þetta svæði. Þau notfæra sér þá orkuna, vatnið, út- og innflutningshöfnina og nálægðina við markaðssvæðið í borginni. Þannig að við erum að vinna mjög einbeitt í þá átt.“

Bygging fimleikaaðstöðu stærsta verklega fram­kvæmdin í augnablikinu
Spurður út í framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins segir Elliði að þeir séu í umtalsvert miklum framkvæmdum. „Við erum með íþróttaaðstöðu sem er alveg ótrúleg. Fólk trúir því ekki þegar maður segir hvernig íþróttaaðstaðan er í Ölfus­inu. Við erum með þrjá grasvelli, tvo strandblakvelli, útisundlaug og innisund­laug, sjö heita potta og tvo kalda potta, stóran íþróttasal fyrir körfubolta og hand­bolta og fleiri greinar, átján holu golfvöll og mótocrossbraut. Það má því segja að það sé ótrúlega mikil íþrótta­þjón­usta. Hún er líka að vaxa núna með aukinni aðstöðu fyrir fimleika. Það er stærsta verklega framkvæmdin í augna­blikinu. Við erum líka að deiliskipuleggja bæði iðnaðarsvæði og íbúasvæði. Það er ásókn í lóðir og við viljum geta mætt því. Stórar framkvæmdir eru því tengdar. Höfnin er í stöðugri þróun og miklar verk­legar framkvæmdir þarfar þar. Þannig að hjólin snúast hratt. Sorpmálin eru ekki á okkar borði. Þau eru hluti af Sorpsamlagi Suðurlands. Við erum á sama stað og önnur sveitarfélög með það eftir að Nessandur varð úti.“

Höfnin hefur áhrif á stórt svæði
„Við erum glöð og ánægð að finna að áhersla og athygli, sérstaklega nágranna okkar hérna í Árnessýslunni og á Reykja­nesinu, liggja nærri okkar um mikilvægi þess að láta höfnina okkar hér vaxa og dafna. Þetta hefur svo mikil áhrif fyrir svo stórt svæði. Þetta yrði í fyrsta skipti í sögu byggðar á Íslandi sem það væri orð­in inn- og útflutningshöfn á Suður­landi. Það er fín höfn í Vestmannaeyjum, en á Suðurlandinu s.s. Íslandsmegin, þá er þetta í fyrsta skipti sem það er komin inn- og útflutningshöfn. Það eru alveg gríðarleg tækifæri og mikilvægt fyrir okkur Sunnlendinga og nágranna okkar að standa saman um uppbyggingu og láta svo saman við það spila nauðsynlegar innviðafjárfestingar eins og í vega­framkvæmdum og þess háttar.“

Nýjar fréttir