9.5 C
Selfoss

Fyrirmyndarverkefni á Biskupstungnaafrétti

Vinsælast

Undanfarna mánuði hafa heimamenn í Biskupstungum í góðu samstarfi við Ferða-og samgöngunefnd Landsambands hestamannafélaga unnið að stóru verkefni er varðar kortlagningu og merkingu reiðleiða á Biskupstungnaafrétti.

Upphaf verkefnisins má rekja til vinnu við nýtt aðalskipulag Bláskógabyggðar. Í þeirri vinnu var ítarlega lagst yfir reiðleiðir á afréttinum, sumum leiðum var lokað, aðrar eru takmarkandi þ.e. einungis má fara þær með hesta í taumi, ekki rekstra og sum staðar hefur umferð ríðandi manna verið beint af viðkvæmum gróðursvæðum.

Við auglýsingu aðalskipulagsins gerði Ferða- og samgöngunefnd LH athugasemdir við sumar af þeim breytingum á reiðleiðum sem við lögðum til. Brugðist var við þeim athugasemdum með því að funda með fulltrúum Ferða- og samgöngunefndar LH. Skemmst er frá því að segja að hvergi steytti á í okkar samræðum. Allir voru sammála um að með markvissum merkingum, kortlagningu reiðleiða, stýringu, góðum og aðgengilegum upplýsingum um hvernig ferðast skal um hálendið, þá geti hestamenn og allir þeir sem njóta vilja hálendisins farið um það án þess að raska viðkvæmum svæðum. Niðurstaða fundarins var að merkja allar reiðleiðir á afréttinum og auk þess að koma upp fræðslu/upplýsingaskiltum við helstu áningarstaði.

Alls urðu vegprestarnir 15 og vegvísar á þeim 42. Syðsti presturinn er við Gullfoss og svo rekja þeir sig um allan afrétt alla leið inn á Hveravelli. Á hverjum vegpresti er númer (póstnr. svæðisins og svo hlaupandi nr. 801.01 – 15). Vegprestarnir eru hnitsettir í kortasjá LH, Neyðarlínan er með öll hnit úr kortasjánni þ.e. reiðleiðir, vegpresta, skála o.fl. þannig að öryggi þeirra sem ferðast um hálendið eykst til muna.

Fræðslu-og upplýsingaskiltin eru staðsett í Fremstaveri, Árbúðum og Svartárbotnum. Einnig í Sóleyjardal til upplýsinga fyrir þá sem fara um Þjófadali. Á þessum skiltum er kort af nærliggjandi svæði, örnefni, stutt ágrip um sögu viðkomandi svæðis og upplýsingar um það hvernig ferðast á um hálendið, skiltin eru bæði á ensku og íslensku. Kortin á skiltunum mynda saman eina heild frá byggð í Biskupstungum og norður í Guðlaugstungur.

Vinna við verkefnið var unnin í sjálfboðavinnu. Hönnun skiltanna, textagerð, þýðing yfir á ensku, fundarseta og keyrsla í kringum verkefni og uppsetning skiltanna var unnið í sameiningu Tungnamanna og Ferða-og samgöngunefndar LH, enginn þáði laun fyrir. Eini kostnaðurinn við verkefnið var framleiðsla skiltanna, sá kostnaður var greiddur af LH, tæpar 2 milljónir.

Það var svo á björtum og fögrum sunnudegi í lok ágúst sem vaskir Tungnamenn héldu inn á afrétt og hófu uppsetningu skiltanna. Ekki tókst að koma öllum vegprestunum upp fyrir haustannir en verkefnið verður klárað um leið og aðstæður leyfa næsta sumar.

Guðrún S. Magnúsdóttir

Nýjar fréttir