1.7 C
Selfoss

Rannsóknir og fræðsla um sveitarstjórnarmál efld í nýju rannsóknasetri á Laugarvatni

Vinsælast

Rannsóknir, nám og önnur fræðsla um sveitarstjórnarmál verður efld til muna í nýju rannsóknasetri um sveitarstjórnarmál sem sett verður á laggirnar á Laugarvatni í samvinnu Háskóla Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu samstarfssamning þar að lútandi á aðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á Hótel Örk í dag. Gert er ráð fyrir að starfsemi í nýju rannsóknasetri um sveitarstjórnarmál hefjist 1. janúar 2019.

Nýtt rannsóknasetur verður hluti af Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands en stofnunin og Stjórnmálafræðideild skólans hafa í auknum mæli lagt áherslu á rannsóknir á sviði sveitarstjórnarmála á síðustu misserum og árum. Heildarstuðningur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins nemur 36 milljónum kr. á tímabilinu og verður nýttur til að þróa starfsemi setursins. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára.

„Hið nýja rannsóknasetur er þýðingarmikið skref í að efla fræðilegar rannsóknir á málefnum sveitarstjórna um land allt. Það er sérstaklega ánægjulegt að starfsemin fái aðsetur á Laugarvatni í tengslum við rótgróið þekkingarsamfélag sem þar hefur verið um langan aldur. Samningurinn sem undirritaður var í dag er í takt við viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélagsins Bláskógabyggðar frá árinu 2016 um áframhaldandi starf Háskólans á Laugarvatni,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Íslensk sveitarfélög hafa á síðustu árum tekið við fjölmörgum verkefnum frá ríkinu og skóla- og félagsþjónusta er nú orðin stærsti liðurinn í rekstri þeirra. Auknar kröfur um skipulags- og umhverfismál hafa einnig aukið álag á stjórnsýslu sveitarfélaga en allt þetta kallar á auknar rannsóknir, bæði hagnýtar og fræðilegar, sem tengjast málefnum sveitarfélaga. Með stofnun rannsóknasetursins vilja Háskólinn og ráðuneytið að bregðast við þessum áskorunum í starfi sveitarfélaga og styðja bæði við rannsóknir og aukna fræðslu til þess að efla fagþróun í stjórnsýslu sveitarfélaga og þéttbýlisfræðum.

Þjónusta við sveitarstjórnarstigið
Rannsóknasetrið verður því í senn rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun fyrir sveitarstjórnarstigið og munu rannsóknir innan þess styðja við opinbera stefnumótun og ákvarðanir í málefnum sveitarfélaga og á sviðum byggða-, samgöngu- og samskiptamála. Rannsókna- og verkefnaáherslur setursins munu m.a. snúa að hlutverki og stöðu kjörinna fulltrúa í byrjun 21. aldar, aðkomu íbúa að ákvörðunum sveitarstjórna, samspili dreifbýlis og þéttbýlis í sameinuðum sveitarfélögum og áhrifum stórborgarmyndunar á samskipti sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er mikið ánægjuefni að nýtt rannsóknasetur um sveitarstjórnamál við Háskóla Íslands á Laugarvatni taki til starfa um næstu áramót. Skólinn leggur mikla áherslu á virka þátttöku hans í samfélagi og atvinnulífi og að hann sé m.a. vettvangur nýrra hugmynda og lifandi samstarfs rannsakenda, nemenda, atvinnulífs, stofnana og þjóðlífs. Rannsóknasetur um sveitastjórnarmál við Háskóla Íslands er gott dæmi um slíkt samstarf og ég vil þakka samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögunum í landinu fyrir það traust sem Háskóla Íslands er sýnt með samstarfinu. Setrið mun án efa stórefla rannsóknir á sviði sveitarstjórnarmála samhliða því að að efla fræðslu og þjónustu við sveitarstjórnarstigið,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Þá hyggjast Stofnun stjórnmála og stjórnsýslu við Háskóla Íslands og Stjórnmálafræðideild skólans setja á fót sérstaka námslínu í framhaldsnámi í opinberri stjórnsýslu (MPA-námi) sem helguð er sveitarstjórnarmálum og jafnframt auka vægi endurmenntunarnámskeiða sem sérstaklega eru ætluð starfsfólki í stjórnsýslu sveitarfélaga og kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum.

„Með nýju rannsóknasetri um sveitarstjórnarmál er langþráður draumur orðinn að veruleika. Með því opnast möguleikar á að koma á virku samtali á milli sveitarstjórnarstigins og þeirra sem sinna rannsóknum á sviðinu. Þarna skapast einstakt tækifæri til þess að auka almenna þekkingu um sveitarstjórnarmál og stuðla um leið að eflingu sveitarstjórnarstigsins,“ segir Eva Marín Hlynsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Forsvarsfólk setursins horfir til þess að nýta húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni við rekstur þess en góð aðstaða er þar fyrir styttri námskeið og kennslulotur í þeim hluta MPA-námsins sem snýr að sveitarstjórnarmálum. Ráðinn verður verkefnisstjóri við setrið og mun hann hafa starfsstöð í húsnæði Háskólans á Laugarvatni en forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála verður jafnframt forstöðumaður setursins.

Fréttin birtist fyrst á hi.is.

Nýjar fréttir