-6.6 C
Selfoss

Góð aðsókn á vinkonukvöldi í Þingborg

Vinsælast

Soroptimistaklúbbur Suðurlands hélt sitt árlega Vinkonukvöld í Þingborg 20. september sl. Mjög góð aðsókn var og skemmtu konur sér vel.

Edda Björgvinsdóttir og dóttir hennar, Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, voru veislustjórar og fórst þeim það vel úr hendi. Sigþrúður Guðmundsdóttir, forstöðumaður Kvennaathvarfsins, hélt skemmtilega framsögu um lífið og tilveruna. Jóna Kristín Snorradóttir sem er konan að baki JK-Design kynnti hönnun sína og konur á öllum aldri sýndu fatnað hennar við góðar undirtektir. Ung söngkona úr Hveragerði, Berglind María Ólafsdóttir, heillaði alla með söng sínum.

Ölvisholt Brugghús bauð gestum upp á fordrykk og margir aðilar styrktu þetta Vinkonukvöld með vinningum í happdrætti sem alltaf vekur lukku.

Stór hluti ágóða Vinkonukvöldanna rennur til kvenna á Suðurlandi sem af einhverjum ástæðum þurfa aðstoð til þess að klæða börn sín. Haft er samband við félagsþjónustur á Suðurlandi sem kanna þörfina og láta í té óskalista. Fyrir jólin 2017 fengu 40 börn víðs vegar um Suðurland hlýjan útivistarfatnað að tilstuðlan Sorpotimistaklúbbs Suðurlands.

Að þessu sinni rennur einnig hluti ágóðans til Kvennaathvarfsins sem þakklætisvottur fyrir framlag Sigþrúðar til Vinkonukvöldsins.

Að lokum vill Soroptimistaklúbbur Suðurlands þakka öllum konum sem tóku þátt í Vinkonukvöldinu í Þingborg 20. september sl. fyrir frábæra samveru og hjálp við að ná markmiði sínu að bæta stöðu kvenna og barna á Suðurlandi.

Nýjar fréttir