-6.1 C
Selfoss

Kvenfélagskonur færðu fæðingardeild HSU tæki að gjöf

Vinsælast

Fimmtudaginn 13. september sl. komu konur frá Sambandi sunnlenskra kvenna í heimsókn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og færðu fæðingadeildinni tæki að gjöf. Þar var um að ræða glaðloftstæki, mettunarmælir fyrir nýbura og fósturshjartsláttarsírita. Heildarverðmæti gjafarinnar er 3.389.360 kr.

Glaðloftstækið kemur í stað eldra tækis og er það mun nákvæmara að því leyti að konan nýtir glaðloftið betur og frásog er af tækinu. Mettunarmælirinn er mælir sem mælir sk. POX mælingu sem þýðir að mettun nýburans er mæld á ákveðin máta. Með þessari mælingu er hægt að skima fyrir alvarlegum hjartagöllum hjá nýburum. Fósturhjartsláttarsíritinn er sömuleiðis mikil bylting. Hann mælir hjartslátt fósturs á meðgöngu sem og tíðni og lengd samdrátta. Hann er búinn þeirri tækni að hægt er að greina á milli hjartsláttar fósturs og móður og lætur vita ef tíðni þessara hjartslátta skarast. Einnig er hægt að tengja tækið beint við tölvu sem gerir það að verkum að hægt er að senda hjartsláttarrit rafrænt til frekari skoðunar hjá sérfræðingi ef þörf er á. Með því að hafa ritin rafræn þá er einnig hægt að gera þessi samskipti pappírslaus.

Í frétt á heimasíðu HSU kemur fram að þessar gjafir séu langþráð viðbót fyrir fæðingardeildina og bæti öryggi móður og barns á meðgöngu og eftir fæðingu. Jafnframt færði HSU kvenfélögum innan SSK hugheilar þakkir fyrir. Það er fyrir þeirra góða starf að fæðingadeild HSU er mun betri tækjum búin en annars væri og það verður seint fullþakkað.

Samband sunnlenskra kvenna hefur í gegnum tíðina verið dyggur stuðningsaðili HSU. Í mörg ár hafa verið til sölu englar og jólakort hjá sambandinu og hefur ágóði þeirrar sölu runnið óskiptur til HSU. Englarnir eru falleg hönnun úr gleri og er nýr engill hannaður árlega af nýjum listamanni og hafa þeir því söfnunargildi. Engillinn er falleg gjöf við ýmis tilefni og eru margir sem gefa hann árlega til sinna afkomenda sem er falleg hugsun og styrkir um leið gott málefni. Jólakortin eru sömuleiðis hönnuð eftir nýjan listamann árlega og njóta sömuleiðis vinsælda. Þau og engillinn eru alltaf til sölu hjá kvenfélögunum og einnig í móttöku HSU.

Nýjar fréttir