0.3 C
Selfoss

Bæjarstjórn Ölfuss hafnaði Nessandi og Kirkjuferjuhjálegu sem urðunarstöðum

Vinsælast

Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss sem haldinn var 25. september sl. var tekið fyrir erindi frá stjórn SOS þar sem óskað var eftir því að Sveitarfélagið Ölfus taki formlega afstöðu til þess hvort sveitarfélagið vilji fara í þá vinnu með SOS að Nessandur verði notaður sem urðunarstaður sem hluti af samstarfi sorpsamlaganna fjögurra á Suðvesturhorninu.
Jafnframt var óskað eftir því að bæjarstjórnin fjalli um hvort það telji tilefni til þess að skoða möguleika á að opna Kirkjuferjuhjáleigu sem urðunarstað aftur sem lausn í málinu.

Fulltrúar D-listans lögðu fram bókun á fundinum. Þar kom m.a. eftirfarandi fram:
„Síðustu árin hefur Sorpstöð Suðurlands sem Sveitarfélagið Ölfus er 10% eignaraðili að skoðað urðunarstaði á Suðurlandi fyrir óvirkan úrgang sem ætlað væri til urðunar á tilteknum úrgangi fyrir sveitarfélögin á Suðurlandi, á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Vesturlandi. Urðunarstaðurinn væri framlag Suðurlands í urðunarsamstarfi við tiltekin svæði.
Staðarval var framkvæmt árið 2009 og miðað við þær forsendur sem þá giltu völdust Nessandur og Kirkjuferjuhjáleiga meðal þeirra staðsetninga á Suðurlandi sem þættu vænlegir en alls voru listaðir upp níu staðsetningar á Suðurlandi sem þá þóttu koma til sérstaklega til greina.

Færa má rök fyrir því að þær forsendur sem fyrir lágu við staðarval árið 2009 séu brostnar enda hafa síðan þá risið upp vænleg áform um uppbyggingu matvælaiðnaðar á svæði Nessands, vatnstöku o.fl. Þá má benda á að í gögnum Eflu frá árinu 2009 er sérstaklega á það bent að Miklaholtshellir komi ekki til greina vegna kjúklingaræktunar nálægt því svæði sem mögulega mætti líkja við þau áform sem nú skoðast með svínarækt á svæði Nessands.
Til viðbótar má sjá í gögnum Eflu að Nessandur er metinn sérstaklega vænleg staðsetning þar sem íbúar og fyrirtæki á nálægu svæði voru þá talin mjög jákvæð gagnvart áformum um urðunarstað á svæðinu.

Á íbúafundi sem haldinn var í ágúst 2018 var fundargestum vel ljóst að svo er ekki sem þýðir að listun Nessands sem vænlegasta kost urðunarstaðsetningar á ekki við lengur samkvæmt þeirri aðferðarfræði sem stuðst var við árið 2009.

Í ljósi ofangreinds sem og þeirra hagsmuna sem liggja í mögulegum atvinnutækifærum íbúa og fyrirtækja á svæði Nessands ekki síst ímyndarlega er alfarið mælt á móti því að urðun fari fram á Nessandi. Eins er mikilvægt að minna á að Sveitarfélagið Ölfus hefur nú þegar sinnt þeirri samfélagslegu ábyrgð sinni að taka við úrgangi frá öðrum sveitarfélögum sbr. urðun á Kirkjuferjuhjáleigu á sínum tíma. Það er því vel við hæfi að gefa öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi nú kost á því að velja staðsetningu innan sinna svæða svo samstarf Sorpstöðvar Suðurlands gangi eftir, eins og nú er til skoðunarð“.

Fulltrúar O-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Á síðasta fundi bæjarstjórnar kom fram í niðurlagi bókunar fundarins varðandi sama mál og hér er fjallað um að bæjarstjórn legði áherslu á að samhliða rannsóknum tengdum Nessandi verði aðrir mögulegir urðunarstaðir skoðaðir. Ekkert nýtt hefur komið fram og/eða kynnt fyrir bæjarstjórn Ölfuss frá því að þetta var bókað og því er að okkar mati engar forsendur til þess að leggjast gegn því að viðkomandi staður sé áfram skoðaður sem valmöguleiki. Rannsóknir á viðkomandi urðunarstað sem er skilgreindur sem slíkur á aðalskipulagi Ölfuss hafa ekki átt sér stað meðal annars m.t.t. hvaða óvirka úrgang mætti urða þar. Okkar afstaða er sú sama og fyrri bæjarstjórna Ölfuss að ekki koma til greina að taka á móti neinu sorpi eða úrgangi sem hugsanlega getur valdið mengun.

Við á O-listanum lítum hins vegar á það sem samfélagslega ábyrgð okkar að taka þátt í að leita lausna í þessum málaflokki með hag íbúa Ölfuss að leiðarljósið“.

Eftirfarandi tillaga D-lista var lögð fram:
„D-listinn vísar til fyrri afgreiðslu vegna þessa máls á 259. fundi bæjarstjórnar. Eins og þar kemur fram getur D-listinn ekki tekið jákvætt í að Nessandur verði nýttur sem urðunarstaður. D-listinn hafnar því hugmyndum um nýtingu Nessands fyrir urðunarstað“.

Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum. Jón Páll, Þrúður og Guðmundur voru á móti.

Eftirfarandi tillaga var síðan lögð fram:
„Bæjarstjórn Ölfuss hafnar hugmyndum um að opna á ný urðunarstað við Kirkjuferjuhjálegu sem fyrir fáeinum árum var lokað m.a. að kröfu nágranna.“
Samþykkt samhljóða.

 

Random Image

Nýjar fréttir