-3.3 C
Selfoss
Home Fréttir Aldís Hafsteinsdóttir kjörin formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Aldís Hafsteinsdóttir kjörin formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

0
Aldís Hafsteinsdóttir kjörin formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Aldís Hafsteinsdóttir.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, er nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélag. Aldís hlaut 91 atkvæði eða 62,76% atkvæða. Er Aldís fyrsta konan sem er kjörin formaður sambandsins.

Tveir voru í framboði til formanns og hlaut mótframbjóðandi Aldísar, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, 49 atkvæði. Atkvæði greiddu 145. Auðir og ógildir atkvæðaseðlar voru 5.

Formannskosningu lauk kl. 11 í morgun í Hofi á Akureyri, þar sem 32. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur staðið yfir frá því á miðvikudag. Halldór Halldórsson, formaður sambandsins til síðustu 12 ára, tilkynnti fyrr á þessu ári að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs og varð þá ljóst að kjósa þyrfti nýjan formann.

Aldís hefur verið bæjarstjóri í Hveragerði frá 2006 og var jafnframt fyrsta konan til að gegna því embætti. Áður hafði hún leitt lista Sjálfstæðisflokksins í tvennum sveitarstjórnarkosningum eða frá árinu 1998. Þá hefur hún gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum á vegum sambandsins.

(Byggt á frétt sem birtist á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.)