Ölfus mætir Grindavík í Útsvari næstkomandi föstudag

Árný, Hannes og Magnþóra. Mynd: Svf. Ölfus.
Árný, Hannes og Magnþóra. Mynd: Svf. Ölfus.

Ölfus mætir Grindavík í Útsvari næstkomandi föstudag, 28. september. Eins og allir vita unnu Árný, Hannes og Magnþóra Útsvarið í vor og þau munu halda áfram núna og reyna að landa sigrinum aftur.

Útsvarið er með aðeins breyttu sniði í ár og þáttaröðin verður snarpari, sveitarfélög verða færri og þáttaröðin stytt. Þeim liðum verður boðið til keppni sem hafa unnið Útsvarið síðastliðin 11 ár, komist í úrslit eða farið mjög nærri því. Það er því búist við afar harðri og skemmtilegri keppni. Stefnt var að því að öll lið væru skipuð fyrri þátttakendum, þ.e. þeim þáttakendum sem voru í sigurliði sveitarfélagsins, lentu í öðru sæti o.s.frv. Einnig verða fjögur óhefðbundnari lið með í keppni, sem verður betur kynnt síðar.
Þátturinn sjálfur verður með hefðbundnu sniði og minniháttar breytingar eiga sér stað líkt og fyrri ár. Nýr aðaldómari og spurningahöfundur er Jón Svanur Jóhannsson. Hann var annar aðalspurningahöfunda í fyrra. Sem fyrr eru það Sóli Hólm og Gunna Dís sem eru spyrlar.