11.1 C
Selfoss

Upplifunarbúð varð fyrir valinu

Vinsælast

Í gamla bankahúsinu hefur opnað ný verslun sem ber nafnið VAX. Eigandi verslunarinnar er Sandra Grétarsdóttir. Sandra flutti á Selfoss fyrir þremur árum. Hún er menntuð í förðunarfræði í París og vann við það um tíma. „Vinnutíminn hentaði ekki þegar ég varð sjálfstæð móðir að ala dóttur mína upp. Ég ákvað því að læra lögfræði og vann við það. Undanfarið hef ég mestmegnis unnið við verslunarstjórnun og rekstur.“ Sandra hefur frá því hún flutti á Selfoss sótt vinnu til Reykjavíkur en fannst kominn tími til að eyða meiri tíma á Selfossi og stofnaði verslunina VAX.

„Þegar ég fór að velta fyrir mér að stofna fyrirtæki á Selfossi varð fyrir valinu að opna upplifunarbúð þar sem ég væri að gera ilmkerti og hýbílailmi á staðnum og selja það, þaðan kemur nafnið, VAX. Þá er ég með íslenska hönnunarvöru á boðstólnum, en ég hef alltaf haft gaman af fallegri hönnun.“

Sandra hefur sótt námskeið í ilmkertagerð í London og svo kertagerðarnámskeið í Suður-Frakklandi. Þeirri þekkingu langar henni að miðla til annarra og mun verða með námskeið í því. „Um það leiti sem ég fékk húsnæðið á Austurvegi 21 kom í ljós að ég gat ekki haldið áfram samstarfi við birgjann erlendis þaðan sem ég fékk vaxið og allt til ilmkertagerðarinnar. Ég ákvað samt sem áður að halda áfram með að opna búðina og finna mér nýjan birgja. Það tekur þó nokkurn tíma að þróa hverja ilmkertategund og ég þarf að einhverju leyti að byrja það ferli að nýju. Ilmkertin og híbýlailmarnir koma því síðar, en ég ætla að flýta því eins og ég get þar sem ég finn fyrir miklum áhuga á því og ekki síst námskeiðunum. Þau verða á kvöldin, á íslensku og ensku.“

Í búðinni eru margar fallegar vörur og þeim haganlega fyrir komið. Þá er von á ýmsum nýjungum með haustinu. Búðin er opin virka daga kl.11-18 og laugardaga kl.11-16. Hópar eins og t.d. saumaklúbbar geta fengið að koma í heimsókn að kvöldi til. Viðtökurnar hafa ekki látið á sér standa segir Sandra. „Mig langar að nota tækifærið og þakka Selfyssingum og öðrum góðar viðtökur.

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir