13.4 C
Selfoss

Að liðnu ljósakvöldi 2018

Vinsælast

Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti er aðeins þriggja ára gamalt félag en er þegar farið að skapa sér hefðir. Ljósakvöld félagsins var haldið í þriðja sinn í gamla garðinum í Múlakoti síðastliðið laugardagskvöld. Nafnið og formið á hátíðinni er engin tilviljun heldur tenging við sögu staðarins. Á góðviðrisdögum voru veitingar iðulega bornar fram úti í garði, einkum þó um helgar. Bændurnir í Múlakoti virkjuðu bæjarlækinn árið 1927, löngu áður en sveitir landsins voru almennt rafvæddar. Ólafur Túbals listmálari, sonurinn á bænum, hélt til Kaupmannahafnar síðvetrar 1929 í náms- og skemmtiferð. Þar hreifst hann af borginni við sundin og ljósunum í Tivoli og þegar heim var komið var garðurinn brátt upplýstur á síðsumarskvöldum með mislitum rafurljósum. Þetta var ógleymanleg upplifun gestum og nágrönnum.

Björn Bjarnason formaður Vinafélagsins stjórnaði dagskránni. Ávarp flutti Vigdís Jónsdóttir sagnfræðingur. Grétar Geirsson skemmti gestum með harmonikkuleik fram eftir kvöldi. Að dagskrá lokinni voru bornar fram veitingar, kaffi og ástarpungar, og húsið opnað þeim sem skoða vildu. Í matsalnum er sýning helguð hjónunum Láru Eyjólfsdóttur og Ólafi Túbals. Hópar, sem þess óska, geta fengið leiðsögn um húsið, ef pantað er með fyrirvara.

Liðlega 80 gestir á öllum aldurskeiðum nutu góðrar kvöldstundar í Múlakotsgarðinum í blíðskaparveðri. Þótt slagviðri væri allt í kring hætti að rigna í garðinum kl. 19.30. Þá var þurrkað af húsgögnunum sem Skúli Jónsson frá Þykkvabæ smíðaði úr gömlu reynitrjánum í garðinum. Gestir vígðu nýju garðhúsgögnin og voru á einu máli um að engin húsgögn myndu sóma sér betur í garðinum. Hann hefur tekið miklum stakkaskiptum við heimsókn Garðyrkjuskólans í síðustu viku, sem bjuggu til ný blómabeð, lögðu 300 m2 af þökum og 60 m2 af hellum á nýja dvalarsvæðinu sem húsgögnin sóma sér vel á.

Aðgangseyrir rennur óskiptur til uppbyggingar staðarins.

Nýjar fréttir