Óvenjuháar öldur í Reynisfjöru á morgun

Skjáskot af síðu Vegagerðarinnar.
Skjáskot af síðu Vegagerðarinnar.

Í færslu á facebook síðu sinni segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur að full ástæða sé til að vara ferðfólk við óvenju háum öldum í Reynisfjöru, Kirkjufjöru og víðar í Mýrdal. „Mikill sjógangur fyrir sumartímann og óvenjulegt að því leytinu til, en í rudda útsynningi að vetrinum er slík alda ekki óalgeng.“

Einar heldur áfram; „Sjá má á ölduspákortinu að gert er ráð fyrir allt að 6-7 m hárri öldu. Slík ölduhæð skellur ekki á ströndinni nema að það sé hvasst á stóru hafsvæði. Þ.e. að vindur blási af svipaðri stefnu um langan veg. Stórt vindfang er það kallað ef ég man þetta rétt (e. fetch). Vindakortin tvö sem gilda í kvöld sýna vel hverning vindinum er spáð þvert yfir allt sunnanvert Grænlandshaf í mikilli röst sunnan við þessa lægð vestur af landinu.“

Einar bendir svo á að: „Kannski ætti hreinlega að skoða það að loka þessum fjörum í öryggisskyni fyrir allri umferð eitthvað fram yfir hádegi á meðan sjógangurinn er hvað mestur. Í það minnsta að vara sérstaklega við þessu.“