6.7 C
Selfoss

Sýningarstjóraspjall í Listasafninu í Hveragerði

Vinsælast

Tvær nýjar sýningar standa nú í Listasafni Árnesinga og hafa þær fengið mjög góðar undirtektir frá þeim fjölmörgu gestum sem þegar hafa skoðað þær. Annars vegar er um að ræða sýninguna Halldór Einarsson í ljósi samtímans og hins vegar sýninguna Frá mótun til muna.

Á sunnudaginn kl. 15 gefst tækifæri til þess að fá nánari upplýsingar um sýninguna Halldór Einarsson í ljósi samtímans, því þá mun Ásdís Ólafsdóttir sýningarstjóri ganga með gestum um hana og segja frá.

Halldór Einarsson í ljósi samtímans
Á aldarafmæli fullveldis Íslands er tilefni til að rýna í menningararfinn og setja hann í samhengi við samtíðina. Í Listasafni Árnesinga hafa verk fjögurra núlifandi listamanna verið sett upp í samtali við verk Halldórs Einarsonar og varpa þau nýju ljósi. Halldór fæddist árið 1893 í Brandshúsum í Flóa. Hann lærði tréskurð og teikningu, en flutti árið 1922 til Vesturheims og starfaði lengst af við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago. Meðfram þeirri vinnu skapaði hann mikinn fjölda verka í tré, stein og önnur efni. Á efri árum flutti Halldór aftur til Íslands og lést 1977, en hafði áður gefið Árnessýslu verk sín ásamt peningagjöf. Það var önnur tveggja stofngjafa Listasafns Árnesinga. Listamennirnir Anna Hallin, Birgir Snæbjörn Birgisson, Guðjón Ketilsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir eru höfundar listaverkanna sem sett eru upp með verkum Halldórs og kallast þau á við þau og lífshlaup Halldórs út frá mismunandi forsendum. Sýningarstóri er Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur og er þetta í þriðja sinn sem hún setur upp viðamikla sýningu í Listasafni Árnesinga. Sýningin er á dagskrá afmælisnefndar um aldarafmæli Fullveldi Íslands 2018.

Munir á sýningunni Frá mótun til muna.

Frá mótun til muna

Kjarni sýningarinnar Frá mótun til muna er heimildarmynd sem tekin var upp á námskeiði í rakú brennslu sem haldið var í Ölfusi haustið 2017. Framleiðendur kvikmyndarinnar eru Jónatli Guðjónsson (Rec Studio), Stefán Loftsson (Rent-A-Lens), Atli Rúnar Halldórsson sem sá um viðtölin og Steinunn Aldís Helgadóttir sem var verkefnastjórinn. Sænski leirlistamaðurinn Anders Fredholm var fenginn til landsins til þess að kenna hvernig byggja á viðarkynntan leirbrennsluofn fyrir rakú og kenna einnig aðrar gamlar leirbrennslu aðferðir. Auk heimildarmyndarinnar má sjá verk sem brennd eru með þeirri tækni sem kennd var og eru eftir þátttakendurna sem allir eru starfandi leirlistamenn og þeir eru Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Hólmfríður Arngrímsdóttir, Hrönn Waltersdóttir, Ingibjörg Klemenzdóttir, Katrín V. Karlsdóttir, Ólöf Sæmundsdóttir, Steinunn Aldís Helgadóttir og Þórdís Sigfúsdóttir.

Sýningarnar mun standa til og með 21. október 2018. Safnið er opið kl. 12-18, alla daga þar til í október þegar vetraropnun, sem er fimmtudaga.

Nýjar fréttir