0.5 C
Selfoss

Miðbærinn við brúna

Vinsælast

Brúin og vegurinn hafa verið sú undirstaða verslunar, viðskipta og iðnaðar sem kom fótunum undir þéttbýlismyndun á Selfossi. Vegurinn mun flytjast en áfram verður Ölfusárbrúin slagæð bæjarins. Við höfum einstakt tækifæri til þess að tryggja að fólk haldi áfram að leggja leið sína um Selfoss. Það er hagsmunamál alls Árborgarsvæðisins.

Hugmyndir um nýtt miðbæjarhverfi á svæði við brúna í hjarta Selfoss, sem lengi hefur verið óbyggt að mestu, taka mið af þeim nýju straumum sem hafa verið áberandi í borga- og bæjaskipulagi á síðustu áratugum. Saga og andrúm liðinna tíma verður bindiefnið þegar miðbæir ganga í endurnýjun lífdaga og vísanir í sígildan byggingarstíl og fallegt handverk eru látnar mæta þörfum nútímafólks. Húsin sem mæta munu þeim sem fara yfir brúna eru öll tengd fyrstu árunum í uppbyggingu Selfoss. Það er mikilvæg tenging sem skapar góð hughrif til langframa. Síðan taka við ýmis hús sem valin eru vegna þess að þau eru fulltrúar margs hins besta í íslenskri byggingarsögu og er einnig hægt að nýta fyrir rekstur og íveru sem passar í dag.

Heimaþarfir og heildarhugsun

Vel heppnuð miðbæjarbyggð þarf að miðast við þarfir heimafólks, vera hugsuð sem ein heild og búa yfir andrúmslofti og afþreyingu sem er ekki hægt að sjá og upplifa annarsstaðar. Í miðbæ Selfoss verður til dæmis Gamla mjólkurbúið í forgrunni, þar sem alþjóðlegt heimili skyrsins og mathöll munu skapa sérstakt aðdráttarafl.

Heildarhugsun er nauðsynleg til þess að skapa góðan miðbæ. Lifandi miðbæjarhverfi þarf að vera sambland af fjölmörgum þáttum. Vel heppnaðir miðbæjir hafa „klasa“ nálgun. Það er í stærstum dráttum fyrirfram ákveðið hve stór hluti bæjarins verður lagður undir íbúðir, gististaði, skrifstofur, veitingastaði, verslanir, söfn og sýningar, o.s.frv. Rétta blandan skiptir höfuðmáli. Heildin samanstendur af ólíkum rekstraraðilum, þar sem „stærri“ aðilarnir vega upp þá „minni“. Opin almenningssvæði eru lykilatriði í góðum miðbæ. Opin svæði, græn svæði og torg. Í miðbæ Selfoss verða þrjú skjólgóð torg auk miðbæjargarðsins sem nú er í hönnunn.. Notkunarmöguleikar þessara svæða eru margvíslegir. Til dæmis við að hýsa utanhúss opna (bænda) markaði. Það er gert ráð fyrir uppákomum, t.d. með sviði. Einnig eru þar listaverk, skúlptúrar, leiktæki og önnur afþreying, sætisaðstaða, góðar gönguleiðir og fleira.

Litríkt kvöldlíf í miðbænum

Fólkið er sálin í miðbænum. Fólk býr þar og dvelur þar. Miðbær getur ekki talist vel heppnaður nema fólk vilji búa í honum. Þess vegna eru íbúðir nauðsynlegur hluti af heildarmyndinni – og afþreying fyrir þá íbúa. Íbúar í miðbænum skipta einnig miklu fyrir andrúmloftið, menninguna og stemninguna. Í vel heppnuðum miðbæ er opnunartími rekstraraðila samræmdur og skilyrðum háður. Það er lykilatriði að opið sé frameftir kvöldi án þess að næturró sé raskað. Verðmætustu gestir bæjar eru þeir sem dvelja yfir nótt eða nætur. Rannsóknir hafa sýnt að gestir dvelja helst þar sem það er eitthvað að gera og hafa fyrir stafni eftir klukkan 18:00 á kvöldin. 70% af allri neyslu ferðamanna í verslun, mat og drykk, á sér stað á kvöldin.    Þær hugmyndir sem Sigtún þróunarfélag hefur kynnt um nýtt miðbæjarhverfi á Selfossi eru mjög í anda nýrra strauma um þróun miðbæjarkjarna sem kveikt hafa líf víða um heim. Gamalt kallast á við nýtt til þess að skapa andrúm og skjól fyrir gott og skemmtilegt miðbæjarlíf. Vissulega spennandi fyrir Árborg.

  1. Þeir leggja áherslu á útlit bygginga. Svokallað „curb appeal“ skiptir miklu máli. Hvernig heildarmyndin af húsum er, byggingarstíll, skreytingar, merkingar o.sfrv. Útlit húsa þarf einfaldlega að vera áhugavert, snyrtilegt og skemmtilegt.
  2. Það er líf í þeim! Opnir markaðir, götulistamenn, tónlistaratriði, o.s.frv. Þetta er hluti af starfsemi miðbæjarins og eitt af því sem gerir hann heillandi. Það gerist ekki að sjálfu sér, heldur þarf að vera skipulagt og framkvæmt í samstarfi við íbúa og rekstraraðila miðbæjar.
  3. Þeir eru markaðsdrifnir og með bakland sem sinnir því starfi af alúð og metnaði. Markaðsefnið byggir á upplifunum og tilfinningum, ekki útliti. Bærinn er vörumerkið og vörumerkið er bærinn. Bærinn er það einstakur, að þegar fólk sér myndir af honum þá vekur það upp tilfinningar.
Random Image

Nýjar fréttir