-7.2 C
Selfoss
Home Fréttir Hvað er að frétta?

Hvað er að frétta?

0
Hvað er að frétta?
Gunnar Egilsson

Nú eru liðnir tveir mánuðir frá bæjarstjórnarkosningunum og meirihluti B-, S-, Á og M-lista tekinn við. Flokkarnir tóku við keflinu á þeim tímapunkti að mörg verkefni sem miða að uppbyggingu svonefndra innviða sveitarfélagsins voru yfirstandandi eða komin af stað. Og hvernig hefur svo miðað?

Undirbúningur að byggingu nýs skóla í Björkurlandi var hafinn. Starfshópur hafði skilað af sér tillögum um það hvernig skólinn yrði og næsta verkefni var að skipa byggingarnefnd, sem stýrði nánari þarfagreiningu og hönnunarvinnu. Áætlað hefur verið að taka skólann í notkun haustið 2020, má það ekki seinna vera vegna þess hve nemendum á grunnskólaaldri hefur fjölgað mjög í sveitarfélaginu og mikil þrengsli í Vallaskóla og Sunnulækjarskóla. Til þess að þau tímamörk standist þyrfti vinna byggingarnefndar að vera í fullum gangi. Skemmst er frá því að segja að nefndin hefur ekki fundað frá kosningum.

Snemma vors var ákveðið að kaupa færanlegar kennslustofur til að setja niður við Vallaskóla til að létta á skólanum vegna þrengsla sem hafa skapast vegna örrar nemendafjölgunar síðasta vetur. Að þeirri ákvörðun stóð öll bæjarstjórnin, og voru núverandi formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar í framkvæmda- og veitustjórn þegar ákvörðunin var tekin. Ákveðið var að kaupa stofur sem ekki þyrfti sérstakar undirstöður undir og sem minnst af veitulögnum, en eftir sem áður fullgilt húsnæði til kennslu, svipaðrar gerðar og Reykjanesbær hefur nýtt til að koma upp heilum skóla til bráðabirgða meðan nýr skóli er í byggingu og hefur reynst vel. Ætlunin var að nota stofurnar í tvö ár, eða þar til nýr skóli í Björk yrði tekinn í notkun, enda leitaðist síðasta bæjarstjórn við að byggja frekar varanlegt en að nota bráðabirgðaúrræði. Ekki hugnaðist nýjum formanni framkvæmda- og veitustjórnar, bæjarfulltrúa M-lista, þetta og var ákveðið að nýta stofur þessar aðeins þar til þeim yrði skipt út fyrir „aðra og vandaðri gerð“ færanlegra kennslustofa. Hringlandaháttur af þessu tagi er eingöngu til þess fallinn að sóa fjármunum og skapa óróa í skólastarfi. Þykir þetta einnig benda til þess að ætlunin sé að slá á frest byggingu nýs skóla, en fyrirspurn undirritaðs þar að lútandi sem lögð var fram í bæjarráði í júní hefur enn ekki verið svarað.

Undirbúningur að viðbyggingu við leikskólann Álfheima var hafinn, hönnunarvinna yfirstandandi og til stóð að taka stækkunina í notkun haustið 2019. Til að ná þeim tímamörkum var ákveðið að flýta fyrir útboðsferli og fór fram forval á verktökum sl vor. Forval snýst aðeins um það að ljúka yfirferð yfir hæfisskilyrði sem gerð eru til verktaka áður en verðtilboð eru fengin, þ.e. nýta tímann á meðan lokahönnunarvinna og gerð útboðsgagna fyrir verðtilboð fer fram í það að fara yfir gögn um gjaldfærni og reynslu verktaka og stjórnenda verksins. Þeir sem uppfylla skilyrðin geta tekið þátt í að bjóða í verkið og hefur þessi leið oft verið farin þegar tímaramminn er knappur. Ekki hugnaðist nýjum formanni framkvæmda- og veitustjórnar, bæjarfulltrúa M-lista, þetta og var ákveðið að bakka út úr þessu ferli og byrja upp á nýtt, s.s. fá verðtilboð og fara yfir hæfisskilyrði í einu lagi, ekki hefur enn verið auglýst eftir tilboðum. Ekki gerir þetta neitt annað en seinka ferlinu og lengja tímann þar til viðbyggingin verður tekin í notkun.

En hefur þá ekkert verið gert í framkvæmda- og veitustjórn? Jú, gamalt gæluverkefni nýs formanns framkvæmda- og veitustjórnar, bæjarfulltrúa M-lista, komst á dagskrá á fyrsta fundi og var starfsmanni nefndarinnar falið að vinna að því . Verkefnið snýst um að koma upp veðurstöð á Selfossi í samstarfi við Veðurstofuna, gömul tillaga sem formaðurinn lagði fram á þarsíðasta kjörtímabili og Veðurstofan hafnaði alfarið að taka þátt í.

Undirrituðum þykir afar leitt að þau verkefni sem varða þjónustu við börn og barnafjölskyldur, lögboðin verkefni sem sveitarfélögum ber að sinna, skuli vera komin í frestunarfarveg og að takmörkuðum fjármunum sveitarfélasgins sé sólundað í gæluverkefni

Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi D-lista, og fyrrverandi formaður framkvæmda- og veitustjórnar.