1.1 C
Selfoss

Sumarið ’59 var ekki mikið skárra

Vinsælast

Markús Ívarsson er bóndi á Vorsabæjarhóli í Flóahrepp. Markús er fæddur 1947 og er búinn að vera með búrekstur í 41 ár, eða síðan 1977 þegar hann tók við búinu. Hann var auðvitað mikið heima við sem barn og unglingur og sinnti bústörfum alla tíð. Áður en hann fór að búa sjálfur starfaði hann sitt lítið af hverju eins og gengur. Meðal annars vann hann í fisk á Stokkseyri og var þrjá vetur í byggingavinnu í Reykjavík. Þá dreifði hann pósti í hreppnum þegar það byrjaði. Markús fór síðan tvo vetur til náms á Hvanneyri.

Bændalífið

Markús hefur alltaf verið með kýr sem aðalbúrgrein. Eitthvað slæddist stundum með af öðru. Að meðaltali hafa verið um 30 árskýr á bænum, en þegar mest var voru þetta um 36 til 38 árskýr. Nú er Markús ekki með mjólkurkýr en ræktar nautgripi í kjötframleiðslu. „Þetta þótti nú tiltölulega stór búskapur þá og þótti mikið ef menn voru að fara yfir 100.000 lítrana“, segir Markús. Markús sagðist hafa náð fast að því þegar mest var og bendir á að þetta þyki nú lítið í dag.

Meðfram mjólkurbúskapnum setti Markús niður rófur. „Ég setti niður rófur í einhver stykki og þetta tekið upp og selt. Þetta var mikil handavinna og engin véltækni í þessu. Þetta gat ég geymt svo hér heima á bæ og stundum þurfti ég að leita víðar af geymsluplássi. Þessu byrjaði ég reyndar á áður en ég hóf sjálfur búskap og hafði ágætar aukatekjur af þessu. Þetta fór svo smá minnkandi og hætti svo að lokum. Það voru einhverjir bændur hér sem höfðu grænmetisrækt svona meðfram, en það er búið og menn sérhæfa sig meira í sínu“.

Talið barst aðeins að nýliðun í greininni. Markús bendir á að lánafyrirkomulagið hafi verið annað þegar hann var að byrja. „Og margt um auðveldara kannski en það væri í dag. Lánin sem ég tók við voru til dæmis óverðtryggð“. Markús taldi að það væri þungt að byrja sinn búskap eins og staðan er í dag.

10 km Flóahringurinn passar vel

Það er fleira en búskapurinn sem hefur átt hug Markúsar. Hann er þekktur fyrir að hlaupa um allar trissur hvernig sem viðrar. Hann byrjaði til dæmis að æfa hlaup þegar hann bjó í Reykjavík. Seinna eftir að hann kom austur og hóf búskap hljóp hann yfirleitt eftir seinni mjaltir um vegina í Flóahreppi. Þá er Markús upphafsmaður að hinu landsfræga Flóahlaupi, sem stundum er nefnt Kökuhlaup Markúsar. Uppnefnið kom til að því að veglegt kaffihlaðborð er að hlaupi loknu. „Þetta byrjaði nú bara hérna heima á bæ. Og úr því að menn voru sumir að koma langt að þótti mér ótækt annað en að þeir þæðu kaffi og með því“. Þetta stækkaði svo jafnt og þétt og var fært niðureftir í Félagslund. Boðið er upp á 3, 5 og 10 km hlaup. Svo heppilega vill til að Flóahringurinn er næstum akkúrat 10 km og passar því mjög vel við. Sérstaða þessa hlaups er fyrst og fremst sú fjölskyldustemning sem er yfir. Markús minnist þess hlæjandi að einu sinni kom fyrir að fresta þyrfti ræsingu um stundarkorn því von var á mönnum frá Grindavík sem höfðu gert boð að þeir væru rétt ókomnir og mættu alls ekki missa af ræsingunni. Þetta yrði ekki gert í stórum hlaupum í Reykjavík. Flóahlaupið er ofarlega í huga Markúsar þessa dagana enda 40 ára afmæli í nánd og hugmyndin að gera eitthvað veglegt að því tilefni.

Fátt er um þurra daga í sumar

Þegar spurt er um sumarið 2018 er hið augljósa fyrst til svars. „Það hefur verið ákaflega þurrklítið það sem af er. Alveg afleitt að það hafi varla komið svo mikið sem þurr sólarhringur. Það hafa komið dagar, en það hefur alltaf varað stutt. Þetta var þurr sólarhringur hér 17.júlí og maður náði að klára mikið, og margir búnir loksins. Þetta er kannski öðruvísi með heyskapinn núna því maður er með rúllutæknina. Þá eru mikið stærri vélar í dag þannig að mörgu leyti horfir það öðruvísi við en áður. Ég hugsaði með mér þegar ég var að rúlla núna, að það hefði verið reynt að koma þessu upp í sæti hér í gamla daga“. Markús er stál minnugur á veðurfar. Hann rifjar upp sumarið 1955 sem var annálað leiðinda sumar með endalausri rigningu. „Maður man svona brot úr því, bara að það var allt blautt, endalaust. Sumarið ’59 var ekki mikið skárra, hálf leiðinlegt. Þá var 1969 einnig afbrigðilegt, bæði kalt og blautt sumar. Og mörg fleiri sem maður man eftir. 1984 var mjög erfitt man ég, alveg óhemju rigningar. Árið á undan, 1983 var ekki mikið skárra en það var ansi kalt.“

Blaðamaður drekkur síðasta sopann af kaffinu og þakkar Markúsi fyrir.

Nýjar fréttir