10 C
Selfoss

Skógrækt á svörtum sandi

Vinsælast

Skógræktar og uppgræðslufélag Þorlákshafnar og Ölfus hóf formlega starfsemi sína árið 2014. Gengið var frá samningi við Sveitarfélagið Ölfus um úthlutun á 55 hektara lands til uppgræðslu og skógrækt á Þorlákshafnarsandi á móts við Eyrabakkaveg. Síðan þá hefur verið gróðursett árlega á svæðinu. Auk þess er borinn áburður og hrossaskítur yfir valin svæði til að binda jarðveg og undirbúa land fyrir gróðursetningu. Töluverð lúpína er á svæðinu þó er ber sandur á milli sem mikilvægt er að binda og græða aðeins upp áður en hafist er handa við gróðursetningu.

Mismikið hefur farið niður af plöntum hvert ár, frá u.þ.b. 2 og upp í 10 þúsund eitt árið. Félagið hefur notið mikillar velvildar ýmissa aðila. Sveitarfélagið hefur aðstoðað við flutning á aðföngum, Sláturfélag Suðurlands sem hefur gefið félaginu úrgangsáburð og Hestmannafélagið Háfeti hefur eftirlátið félaginu hrossaskít til dreifingar á sandinum. Landgræðsla ríkisins hefur einnig styrkt félagið til áburðarkaupa. Sótt hefur verið um styrk í Uppgræðslusjóð Ölfuss og fjármagn fengið til plöntukaupa en þær koma auðvitað úr heimabyggð, frá Kjarri í Ölfusi. Einnig hefur Skógræktarfélag Árnessýslu úthlutað félaginu árlega um 6-800 plöntur til gróðursetningar. Öll þessi velvild er félaginu afar mikilvæg.Öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu af félagsmönnum og almenningi í Ölfusi. Markmiðið er að græða markvisst upp svæðið, skapa skjólsæla lundi og stígakerfi sem henta til útivistar og hverskonar hreyfingar.

Hópmynd af þátttakendum, nokkra vantar á myndina.

Boðað er til gróðursetningar árlega, en þetta árið ætlum við að boða til þriggja slíkra daga. Sá fyrsti var þriðjudaginn 17. júlí og var fín mæting af áhugasömu fólki bæði fullorðnum og börnum. Gróðursettar voru um 2500 plöntur af ýmsum tegundum eins og t.d birki, þrjár tegundir af víði og ösp. Einnig skoðum við árangur af eldri gróðursetningum en töluverður árangur er farin að sjást. Oft hefur þó gengið á ýmsu, eins og miklir þurrkar eftir gróðursetningu og mikið rok úr öllum áttum þó einkum af sjó.

Trén sem eru farin að vaxa upp og lúpínur veita ungplöntunum skjól fyrir verstu vindum og smá saman vex skógurinn upp og verður að algjörri paradís fyrir okkur öll. Með samtakamætti að vopni þá verður til góður skógur til handa samfélaginu.

Nýjar fréttir