11.7 C
Selfoss

Haldið upp á fimm ára afmæli Fischerseturs á morgun

Vinsælast

Á morgun, laugardaginn 21. júlí, verður þess minnst að fimm ár eru liðin frá því að Fischersetrið á Selfossi var stofnað. Afmælishátíðin hefst í Laugardælakirkju kl. 15:30. Þar mun séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, fyrrverandi sóknarprestur Selfossprestakalls, sjá um minningarathöfn og Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, flytja ræðu. Að athöfn lokinni verður boðið upp á kaffi í Fischersetri þar sem Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, mun flytja ávarp.

Davíð Oddsson var utanríkisráðherra þegar Fischer var gerður að íslenskum ríkisborgara. Fróðlegt verður að heyra Davíð segja söguna um aðdraganda þessarar ákvörðunar og átökin í kringum meistarann, en málið var afgreitt á Alþingi á 12 mínútum. Guðmundur G. Þórarinsson var í þeirri öflugu sendinefnd sem sótti meistarann til Japans þar sem hann var í fangelsi. Ennfremur var Guðmundur G. forseti Skáksambandssins þegar einvígi aldarinnar var háð í Reykjavík árið 1972.

Fischer var jarðaður í Laugardælakirkjugarði síðla nætur án vitundar séra Kristins Ágústs Friðfinnssonar sem þá var prestur í Laugardælakirkju. Það varð svo hlutskipti séra Kristins að jarðsyngja meistarann nokkrum sinnum og annast lokajarðaförina eftir að Fischer var grafinn upp til að ná lífsýni úr honum.

Allir eru velkomnir á afmælishátíðina.

Nýjar fréttir