3.9 C
Selfoss

Útivistarverkefnið Sá ég spóa suð´r í Flóa hafið

Vinsælast

Fyrir skömmu fór af stað glænýtt útivistarverkefni hjá Ungmennafélaginu Þjótanda í Flóahreppi sem ber heitið „Sá ég spóa suð´r í Flóa“. Verkefnið hentar jafnt fjölskyldum sem einstaklingum á öllum aldri og stendur yfir í júlí og ágúst í sumar.

Kynntir eru til sögunnar sex mismunandi staðir í Flóahreppi. Á hverjum stað er staðsettur póstkassi og staur. Í póstkassanum er gestabók og skriffæri. Þar skrifa allir viðstaddir nöfnin sín og ganga svo frá öllu aftur. Þann 1. september verður öllum gestabókunum safnað saman og farið yfir niðurstöður. Nöfn þeirra sem ritað hafa í a.m.k. 5 gestabækur af 6 lenda í potti. Dregnir verða svo út tveir vinningshafar, og hljóta þeir veglegan vinning, fjölskyldupassa á LAVA centre á Hvolsvelli.

Göngukort sem sýnir staðina í Flóahreppi sem hægt er að ganga á.

Tilgangur „Sá ég spóa suð´r í Flóa“ er fyrst og fremst að fá fjölskyldur og einstaklinga til að fara út í náttúruna og stunda holla hreyfingu. Um leið er hægt að komast vítt og breitt um okkar fallega sveitarfélag, sjá staði sem ekki hafa verið heimsóttir áður, og upplifa ný sjónarhorn. Mjög sniðugt getur verið að hafa með sér fuglabók eða blómabók til að glugga í á leiðinni. Upplagt er að taka með sér nesti fyrir krakkana og hafa góða skapið meðferðis, því oft þarf ekki að leita langt yfir skammt, né kosta miklu til, til að skapa góðar minningar. Verkefnið verður einnig kynnt á Facebooksíðu félagsins og þar undir er upplagt að setja inn myndir af göngugörpum.

Hellaskoðun á Haugi
Lagt við Gaulverjabæjarkirkju og genginn vegslóði sem liggur í suðurátt. Farið í gegnum járnhlið og inn í Haugsland. Eftir rúmlega 300 metra göngu er hægt að fara að svipast um eftir hellinum og póstkassa við hellismunnan. Athugið að fara varlega í kringum og inni í hellinum. Ofan á honum er gat sem litlir einstaklingar gætu mögulega dottið ofaní. Þeir sem vilja fá lengri göngu geta tekið vegslóðann sem liggur til vinstri eftir að komið er fram hjá kirkjunni og gengið í kringum Bæjarvatn. Leiðin í kringum vatnið er þýfð og yfir tvær girðingar að klofa en skemmtileg engu að síður. Leiðin í kringum vatnið er um 3 km löng.

Fjöruferð við Loftsstaði
Já, það er hægt að anda að sér sjávarseltu í Flóahreppi. Lagt við íbúðarhúsið á Vestri-Loftsstöðum og gengið á Loftsstaðahól sem ætti ekki að fara framhjá neinum. Við hólinn finnið þið póstkassa en þeir sem vilja geta gengið lengra út á sandinn og athugað hverju sjórinn hefur skolað á land.

Fjallganga að Uppsölum?
Lagt við íbúðarhúsið í Uppsölum (þar býr enginn þessa dagana). Genginn vegslóði til suðvesturs, framhjá litlum skógræktarreit við veginn og upp á holt sem kallað er Háaleiti. Þar efst uppi liggja jarðamörk Uppsala og Sölvholts og þar er gott útsýni til allra átta. Hver veit nema fólk sjái Selfoss frá sjónarhorni sem það hefur aldrei séð áður. Leiðin upp á hæðina er um 600 m löng og á Háaleitinu má finna póstkassa.

Hvítáin skoðuð við Einbúa
Lagt við hliðið að Einbúa, gengið meðfram hestagirðingunni og þaðan niður að Hvítá. Gengið meðfram ánni í norðurátt þangað til komið er að klettum sem kallast Skotaberg. Þar er að finna póstkassa. Athugið því næst hvort þið getið veifað einhverjum í Grímsnesinu áður en þið gangið til baka. Bónusstig fyrir þá sem hlaupa uppá Einbúaklettinn að göngu lokinni!

Fornleifarannsókn við Þjótanda
Bílnum lagt rétt áður en kemur að gömlu Þjórsárbrúnni. Gengið niður að á og upp með ánni þangað til þið finnið póstkassa. Þar sem póstkassinn stendur fór fram fornleifauppgröftur árið 2008 þar sem grafinn var upp skáli sem var að hluta til frá landnámsöld.

Skógarferð í Skagás
Ekið í gegnum hliðið og lagt neðan við skógræktina. Gengið upp fyrir þéttasta skóginn. Þar fyrir ofan tekur við yngri skógrækt. Undir þríhyrningslaga kletti er búið að koma fyrir grilli og þar er upplagt að grilla (hafið með ykkur kol og olíu). Frá grillinu sést til póstkassans. Eftir að búið er að skrifa í gestabókina má leika sér í skóginum að vild.

Nýjar fréttir