11.1 C
Selfoss
Home Fréttir Heilsuleikskólinn Brimver/Æskukot tók á móti grænfána í fjórða sinn

Heilsuleikskólinn Brimver/Æskukot tók á móti grænfána í fjórða sinn

0
Heilsuleikskólinn Brimver/Æskukot tók á móti grænfána í fjórða sinn

Heilsuleikskólinn Brimver/Æskukot náði því markmiði að fá sinn fjórða grænfána afhentan við hátíðlega athöfn á vorhátíð leikskólans  sem haldin var í Brimveri á Eyrarbakka þann 21. júní sl. Þann dag gengu nemendur sem eru í Æskukoti á Stokkseyri fæddir 2012, 2013 og 2014 ásamt kennurum, Fjörustíginn sem liggur á milli þorpanna og mættu á hátíðina í Brimveri á Eyrarbakka og tóku á móti fánanum með nemendum þar.

Allir elstu nemendur leikskólans, samtals 13 börn sem fædd eru árið 2012 eru í umhverfisnefnd ásamt verkefnastjóra Viktoríu Ýr Norðdhal, kennurum og starfsfólki skólans. Fundir umhverfisnefndar hafa verið haldnir reglulega á skólabókasafni Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES). Áhersla var lögð á tvö þemu, lýðheilsu og úrgang(rusl). Á fundum umhverfisnefndar var rætt um heilsu, líkamann, líkamsheiti, tilfinningar, líðan, endurnýtingu,  matarsóun og flokkun. Umræður voru um líðan og heilsu okkar í skólanum og hvernig við getum stuðlað að vellíðan og heilbrigði. Stuðst var við bókina Kroppurinn er kraftaverk eftir Sigrúnu Daníelsdóttur og hugmyndafræði bókarinnar nýtt sem útgangspunktur í verkefninu með nemendum. Þessi skemmtilega bók kennir börnunum að þykja vænt um líkama sinn, hugsa vel um hann og bera virðingu fyrir líkömum annarra. Verkefnið fellur vel að aðalnámskrá leikskóla og samræmist vel skólastarfi.

Dagurinn var ánægjulegur í alla staði þar sem nemendur skólans stóðu sig með stakri prýði og árangri var fagnað. Afhending grænfánans er staðfesting á menntun til sjálfbærar þróunar og að skólinn hafi lagt sitt af mörkum til þess að efla og bæta umhverfismál innan skólans og í nærsamfélaginu.