6.1 C
Selfoss

Kvenfélag var og verður

Vinsælast

Kvenfélagið Sigurvon var stofnað 25. janúar 1940. Konurnar sem skipuðu fyrstu stjórn félagsins voru Steinunn Sigurðardóttir formaður, Dagbjört Gísladóttir gjaldkeri og Guðrún Elíasdóttir ritari. Á þriðja fundi þessa nýja félags sem haldinn var 4. mars 1940 í samkomuhúsi Þykkvabæjar, var samþykkt að taka á móti Sambandi sunnlenskra kvenna með ársfund sinn þann 31. maí. Kvenfélagið Sigurvon var 24. félagið til að ganga til liðs við sambandið.

Ekki var nú fyrirvarinn mikill, en félagskonur gerðu sér lítið fyrir og stofnuðu kvennakór til að skemmta á fundinum. Þetta segir í fundargerð frá 1. apríl og var þar einnig samþykkt að félagið biði fundarkonum til „SAMDRYKKJU“ í lok þings. Þingið stóð í þrjá daga frá 31. maí til 3. júní. Frú Herdís Jakobsdóttir formaður Sambands sunnlenskra kvenna (1928–1948) þakkaði konunum í nýstofnuðu kvenfélaginu fyrir góða samveru og höfðinglegar móttökur í Þykkvabænum.

Í lok fyrsta starfsárs Sigurvonar voru félagskonur 37. Þarna voru saman komnar stórhuga konur sem létu sér fátt óviðkomandi í samfélagi sínu. Einnig voru þær duglegar að bæta þekkingu sína m.a. með fjölbreyttum námskeiðum. Eitt af þeim var saumanámskeið sem efnt var til á haustdögum þetta fyrsta starfsár. Þar hittust 25 konur í sex vikur og saumuðu undir leiðsögn Magdalenu Sigurþórsdóttir og afraksturinn var 261 flík. Þykkbæingar hafa ekki farið í jólaköttinn þau jólin. Og að ógleymdu stóðu þær fyrir jólaskemmtun, tombólu, dansskemmtun og fleirri uppákomum í sveitinni sinni.

Nú er árið 2018 og kvenfélagið Sigurvon lifir enn góðu lífi og starfsemin ekki svo ólík og fyrir 78 árum. Eftir fremsta megni styðjum við við nærumhverfið um leið og félagið eflir okkur í leik og starfi.

Að vera í kvenfélagi er svo mikið meira en kökubakstur. Það er samvinna, samstarf og samvera sem er svo gefandi og gleðileg.

Framundan hjá okkur í Sigurvon er sumarferð með óvissuívafi. Enn og aftur verður Árnessýsla fyrir valinu. Að baki eigum við tvær ferðir um uppsveitirnar og nú ætlum við að færa okkur nær ströndinni. Byrjum við Urriðafoss og aldrei að vita hvar við endum. Það þarf ekki alltaf að fara langt til að eiga ógleymanlegan dag saman. Svo verður nýju starfsári startað með haustfundi félagsins og dagskráin mótuð … í bland fastir liðir og eitthvað nýtt og spennandi.

Í kringum 1940 voru kvenfélögin mjög mikilvægur hlekkur í samfélaginu og það hefur ekkert breyst. Það væri margt öðruvísi í okkar nútímasamfélagi ef þeirra nyti ekki við.

Með kvenfélagakveðju
Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir, formaður kvenfélagsins Sigurvonar í Þykkvabæ.

Nýjar fréttir