7.8 C
Selfoss

Tónlistarhátíðin Englar og menn hefst á sunnudaginn

Vinsælast

Hin árlega tónlistarhátíð Englar og menn hefst í Strandarkirkju sunnudaginn 1. júlí nk. með opnunartónleikum kl. 14. Þar munu koma fram Björg Þórhallsdóttir sópran, Elmar Gilbertsson tenór, Elísabet Waage hörpuleikari, Guðni Franzson klarinettuleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Þau munu flytja sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns, Emil Thoroddsen, Pétur Sigurðsson, Guðna Franzson, F. Schubert, G. Faure, L.V. Beethoven, Chopin, Donizetti o.fl.

Hátíðin verður lengri í ár en undanfarin ár og stendur nú yfir frá 1. júlí til 12. ágúst. Hátíðin verður glæsileg sönghátíð líkt og á undanfarin ár, þar sem fram koma margir fremstu söngvara og hljóðfæraleikara landsins ásamt ungum og upprennandi söngvurum.

Í Strandarkirkju er einstakur hljómburður og helgi sem skapar hlýja stemningu og nálægð. Flytjendur sumarsins eru með það í huga við val á efnisskrá sinni sem er afar fjölbreytt og er í takt við anda og sögu staðarins.

Sunnudaginn 8. júlí kemur Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari og tónlistarstjóri Íslensku óperunnar fram ásamt ungum og upprennandi tónlistarstjörnum, en með honum verða Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Kristín Anna Guðmundsdóttir sópran og Pétur Björnsson fiðluleikari.

Sunnudaginn 15. júlí koma fram okkar ástsæla sópransöngkona, Sólrún Bragadóttir og Ágúst Ólafsson baritón og með þeim leikur Jón Sigurðsson á orgel og píanó.

Sunnudaginn 22. júlí koma söngkonurnar Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran og Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran fram og með þeim leikur Ástvaldur Traustason á orgel og harmonikku.

Sunnudaginn 29. júlí koma svo feðginin Valgeir Guðjónsson og Vigdís Vala Valgeirsdóttir fram og gleðja áheyrendur.

Sunnudaginn 5. ágúst verða söngvararnir Hildigunnur Einarsdóttir alt og Jón Svavar Jósefsson baritón með dagskrá tileinkaðri Halldóri K. Laxness svo eitthvað sé nefnt.

Hátíðinni lýkur svo með Maríumessu og lokatónleikum 12. ágúst kl. 14. Þar fram koma Björg Þórhallsdóttir sópran, Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran, Elísabet Waage hörpuleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Sr. Baldur Kristjánsson sóknarprestur annast guðsþjónustuna.

Þema hátíðarinnar er englar og menn, land, náttúra, trú og saga þar sem þjóðlög, einsöngslög og dúettar, ásamt innlendum og erlendum trúarljóðum hljóma.

Björg Þórhallsdóttir, sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd.

Strandarkirkja er ein þekktasta áheitakirkja landsins og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni.

Mikil fegurð er í Selvognum og þangað er um klukkustundar akstur frá Reykjavík um Þrengslin. Tilvalið er að taka með sér nesti eða gera vel við sig hjá heimamönnum í Pylsuvagninum eða á kaffihlaðborði í T-bæ. Í Selvognum eru einnig næg tjaldstæði og góð aðstaða fyrir ferðamenn.

Á heimasíðu hátíðarinnar www.englarogmenn.is er ítarleg dagskrá sem og á Facebook-síðu hátíðarinnar.

Nýjar fréttir