5.6 C
Selfoss

Búið að vera gaman að fá svona marga gesti

Vinsælast

„Þetta hefur farið mjög vel af stað og maður er bara mjög glaður með það. Það er mikil jákvæðni og gleði í kringum þetta allt,“ segir Stefán Már Sigríðarson, annar eigenda og rekstraraðili Noodle Station sem opnaði á Selfossi mánudaginn 18. júní sl.

„Fyrsta hugsunin hjá okkur var að auka fjölbreytni fyrir íbúa Selfoss. Það var númer eitt, tvö og þrjú. Okkur hefur verið tekið gríðarlega vel. Það er búið að vera mjög gaman að fá svona marga gesti. Allir ánægðir og glaðir og margir að koma aftur og aftur fyrstu vikuna.“

Veitingastaðurinn Noodle Station á Selfossi.

Noodle Station býður eingöngu upp á matarmiklar súpur með núðlum. „Þetta eru frábærar núðlusúpur sem við erum með. Þær eru með nautakjöti eða kjúklingakjöti. Svo er líka hægt að fá súpur sem eru bara með grænmeti. Þetta er mjög matarmikið og getur verið bragðsterkt en fólk getur valið hversu sterkt það er. Fólk getur bæði tekið matinn með sér heim eða borðað á staðnum,“ segir Stefán Már.

Veitingastaðurinn Noodle Station á uppruna sinn í Reykjavík. Í dag eru þrír staðir á höfuðborgarsvæðinu, einn á Laugavegi 103 og einn í Kringlunni í Reykjavík og síðan er einn staður í Bæjarhrauni 4 í Hafnarfirði.

„Uppskrift réttanna á Noodle Station er frá Tælandi komin. Hún er frá þriðja ættlið Tælendinga sem er hingað kominn. Öll krydd og núðlur koma þaðan. Þessar núðlur eru glútenfríar sem er mikið atriði fyrir marga í dag. Staðurinn á Selfossi er rekinn sér af eigendum hans en undir leyfi Noodle Station.

Nýjar fréttir