7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Sumartónleikaröð á Hendur í höfn

Sumartónleikaröð á Hendur í höfn

0
Sumartónleikaröð á Hendur í höfn
Ásgeir Trausti er einn þeirra sem mun flytja tónlist á Hendur í Höfn.

Veitingastaðurinn Hendur í Höfn, sem er nýorðinn fimm ára, opnaði í maí í stærra og mikið endurbættu húsnæði við aðalgötu Þorlákshafnar.

Á þessum mánuði sem Hendur í höfn hefur verið starfandi á nýjum stað hafa viðtökurnar verið framar björtustu vonum. „Það er sama hvort það sé þriðjudagur eða laugardagur, það er alltaf fullt af gestum,“ segir Dagný Magnúsdóttir, listakona og eigandi Hendur í höfn en þar er eldhúsið nú opið alla daga til kl. 20:30. Eins og þeir vita sem lagt hafa leið sína á Hendur í höfn síðustu ár þá er Dagný mikill fagurkeri og umhverfið engu líkt og það sama má segja á nýja staðnum þar sem stíllinn hennar heldur sér vel og mikið af úthugsuðum smáatriðum sem gleðja augað.

Ásgeir, Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson, Salka Sól og fleiri stíga á stokk

Í sumar verður glæsileg tónleikaröð á Hendur í höfn þar sem fram koma bæði heimafólk og tónlistarfólk úr fremstu röð á Íslandi. Ása Berglind, skipuleggjandi þessarar tónleikaraðar, segir að þetta sé ákveðin tilraun til þess að bjóða Þorlákshafnarbúum og Sunnlendingum öllum uppá þétta og metnaðarfulla tónleikadagskrá. „Ég vonast til þess að fólk muni fjölmenna á alla tónleikana og sýni þannig íslensku tónlistarfólki fram á að Þorlákshöfn sé góður valkostur þegar hugsað er til þess hvar blásið skal til hljómleika.“

Ása segir að á þessum tónleikum gefst tónleikagestum kostur á að sjá tónlistarfólk eins og Ásgeir, Sölku, Sigríði Thorlacius, Sigurð Guðmundsson og fleiri og að nándin sé mikil: „Þetta er sennilega það sem kemst næst því að hafa þetta frábæra tónlistarfólk heima í stofu, stemningin verður þannig, bæði vegna þess að umhverfið hjá Dagný er svo hlýlegt og yndislegt og líka vegna þess að staðurinn er ekki stór í samanburði við aðra tónleikastaði. Þó það sé frábært að fara á tónleika á stöðum eins og í Hörpu, Háskólabíó og þannig, þá er fátt sem jafnast á við að sjá sitt uppáhalds tónlistarfólk með þessum hætti eins og boðið verður upp á á Hendur í höfn í sumar.” Þess má geta að Þorlákshöfn er í aðeins 30 mín. akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og því tilvalinn rúntur á góður sumarkvöldi.

Ása hvetur áhugasama til að bíða ekki með að tryggja sér miða á tónleikana, því sætaframboð sé takmarkað. „Svo má ekki gleyma að panta borð á hendurihofn@hendurihofn.is fyrir þá sem vilja nota tækifærið og fá sér dýrindis mat fyrir tónleika”.