Það alltaf ákveðin stemmning síðustu dagana fyrir sveitarstjórnarkosningar, frambjóðendur lofa að standa fyrir hinum ótrúlegustu framfaramálum, og jafnvel betra veðri með blóm í haga. En hverju eiga svo kjósendur að trúa?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með hreinan meirihluta síðustu tvö kjörtímabil í Árborg, svo væntanlega vilja þeir sem ætla sér að styðja þann flokk engar breytingar. Svf Árborg á gríðarlega framtíðarmöguleika, styrkleikar sveitarfélagsins hafa að mínum dómi ekki verið virkjaðir næganlega vel og tækifærin ekki nýtt. Það á að vera hægt að byggja mun betur upp og stjórn sveitarfélagsins þarf að vera uppteknari af uppbyggingu og sóknarhug.
Setjum X við S
Samfylkingin ætlar að leggja sérstaka áherslu á dagvistunar og fræðslumál á næsta kjörtímabili. Það er afar mikilvægt að huga með reglubundnum hætti að velferð barna og frábæru starfsfólki skólanna. Margt ágætt hefur verið gert en alltaf má gera betur, við þurfum að vinna að öflugum forvörnum við vaxandi kvíða og þunglyndi barna.
Áreitið í nútímasamfélagi er mikið og sú veröld sem börnin búa við í tækniheimum oft á tíðum óhugnaleg. Það þarf að upplýsa börn og unglinga um muninn á raunheimum og net og leikjaveröld, þjálfa þau i mannlegum samskiptum og vinna með styrkleika hvers og eins einstaklings. Samfylkingin lofar ekki fleiri sólardögum en við munum leggja okkur fram um að réttlæti og umbætur á öllum sviðum rekstrar sveitarfélagsins, nái fram að ganga fáum við til þess afl. Látum nú hjartað ráða för og merkjum við XS á kjördag
Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Samfylkingarinnar í Árborg.