9.5 C
Selfoss
Home Fréttir D-listinn notar veiturnar til að halda bæjarsjóði á floti

D-listinn notar veiturnar til að halda bæjarsjóði á floti

0
D-listinn notar veiturnar til að halda bæjarsjóði á floti
Ingunn Guðmundsdóttir.

Frá árinu 2010 hefur Sjálfstæðisflokkurinn (D-listinn) stjórnað Sveitarfélaginu Árborg. Allan þann tíma hefur bæjarsjóður (A-hluti ársreiknings), verið rekinn með tapi upp á samanlagt ríflega einn milljarð króna. Tapið væri meira ef ekki væri tekinn gríðarlegur arður frá veitufyrirtækjum í eigu bæjarins eða tæplega einn milljarður króna. Ef ekki væri tekinn þessi arður væri tapið meira en tveir milljarðar króna.

B- hluta fyrirtæki í samtæðureikningi Árborgar eru Byggingarsjóður aldraðra, Leigubústaðir Árborgar ses, Fráveita, Vatnsveita, Selfossveitur bs og Sandvíkursetur ehf. Tekjur þessara félaga verða til annars vegar með húsaleigu og hins vegar með veitugjöldum. Það eru veitufyrirtækin sem greiða arðinn til bæjarsjóðs (A) eða íbúarnir með álögðum gjöldum.

Auk þess að taka út þessar miklu arðgreiðslur frá veitum tekur bæjarsjóður (A) einnig peninga að láni hjá þeim. Bæjarsjóður (A) skuldar B-hluta fyrirtækjum 1,2 milljarða króna.

Bæjarsjóður (A), hinn venjubundni rekstur sveitarfélagsins, þarf að vera sjálfbær til að hægt sé að skapa svigrúm, til að lækka álögur á bæjarbúa, bæta þjónustuna eða greiða niður lán. Það verður erfitt. En fyrsta skrefið er að gefa D-listanum frí því reynslan sýnir að ekki gera þeir nauðsynlegar umbætur á rekstrinum, heldur þveröfugt. Tölurnar tala sínu máli.

Ingunn Guðmundsdóttir, viðskiptafræðingur og skipar 6. sæti Á-lista, Áfram Árborg.