4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Hafa skal það sem sannara reynist

Hafa skal það sem sannara reynist

0
Hafa skal það sem sannara reynist
Ásta Stefánsdóttir.

Það er merkilegt að fylgjast með upphrópunum og rangfærslum Miðflokksins í Árborg á facebook-síðu flokksins. Jaðrar við að hugtakið „falsfréttir“ komi upp í huga lesanda. Ég nefni hér eitt dæmi, sem ekki er hægt annað en að leiðrétta:

Í nýlegum færslum er talað um „útgjaldalekann“ í Árborg og nefnt sérstaklega til að launaliður sveitarfélagsins hafi hækkað um 435 milljónir króna á milli áranna 2016–2017, þrátt fyrir að engar kjaraviðræður hafi kallað á það að hver starfsmaður hækki í launum sem nemur einni milljón króna.

Við þetta er eftirfarandi að athuga:

Á árinu 2017 komu um 187 milljónir króna til gjaldfærslu á launalið vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð skv. samningi 3ja stéttarfélaga, ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þetta veit forsvarsmaður Miðflokksins, enda er gerð skilmerkileg grein fyrir þessu í athugasemd við ársreikning.

Kjarasamningsbundnar launahækkanir voru á árinu 2017 í öllum þeim kjarasamningum sem Sveitarfélagið Árborg greiðir laun eftir, auk þess sem 7,5% launahækkun til KÍ-félaga sem samið var um í lok desember 2016 kom til greiðslu í upphafi árs 2017. Prósentuhækkanir á einstaka samninga á árinu 2017 námu frá 2,5 til 8,3%. Listi yfir kjarasamningshækkanir í 19 kjarasamningum er aðgengilegur hér. Það eru því helber ósannindi að „engar kjaraviðræður“ hafi kallað á launahækkun. Upplýsingar um kjarasamninga eru öllum aðgengilegar á vefsíðum stéttarfélaganna og á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Er þá ótalin fjölgun stöðugilda starfsmanna sveitarfélagsins milli ára, en til dæmis þá fjölgaði um tæplega tíu stöðugildi í grunnskólum sveitarfélagsins vegna mikillar fjölgunar barna á grunnskólaaldri. Slík fjölgun leiðir eðlilega til þess að greiðslur á launum og launatengdum gjöldum hækka.

Það sér það hver sem vill, að fjölnota íþróttahús af stærstu gerð sem kostar á við einn grunnskóla, verður ekki byggt með því að stöðva þennan „útgjaldaleka“ enda algerlega óheimilt að greiða starfsmönnum sveitarfélaga lægri laun en kjarsamningar kveða á um. Ekki kemst sveitarfélagið heldur undan sínum skuldbindingum hvað varðar lífeyrismál starfsmanna.

Höfnum rangfærslum af þessu tagi. Höfnum uppskrúfuðum kosningaloforðum sem augljóst er að ekki er unnt að efna.

X við D tryggir öruggt áframhald fyrir Sveitarfélagið Árborg.

Ásta Stefánsdóttir, frambjóðandi í 5. sæti D-lista

Launah. skv. kjarasamn. 2016-2017 (00000002)