5.4 C
Selfoss
Home Fréttir Bækur hafa breytt heiminum og munu halda áfram að gera það

Bækur hafa breytt heiminum og munu halda áfram að gera það

0
Bækur hafa breytt heiminum og munu halda áfram að gera það
Hanna Lára Gunnarsdóttir.

Hanna Lára Gunnarsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er grunnskólakennari við Vallaskóla þar sem hún kennir stærðfræði, ensku og heimspeki. Hún er alin upp á Ísafirði en hefur búið á Selfossi í 24 ár.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er að lesa nokkrar bækur eins og alltaf. Meðal annars Grænmetisætuna eftir Han Kang í leshringnum okkar. Síðan er það Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson sem góð vinkona mælti með við mig. Jón Kalman er merkilegur rithöfundur og einn sá besti á landinu í dag. Mér þykja bækurnar hans úr kuldanum „að vestan“ unaðslestur. Nýlega las ég svo sjálfsævisögu Katharine Hepburn. Hún var flott kona og bókin nokkuð góð. Fjöruverðlaunabókin Elín ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur vakti athygli mína, draumkennd og skrítin og skemmtileg. Mikið er gott þegar bækur vekja spurningar. Helst fleiri en svör.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég les helst góðar skáldsögur, íslenskar og þýddar og er vandlát á þær. Ég nenni ekki að lesa fleiri krimma nema þeir séu þeim mun dýpri. Ljóð höfða líka til mín og það er betra en bænastagl að lesa gott ljóð fyrir svefninn. Eftirlætisbókmenntirnar eru þó helst þær sem koma mér til að hlæja eins og Flosi í Kvosinni, Discworld bækur Terry Pratchett, Douglas Adams og fleiri. Ég heyrði á sínum tíma Pétur Gunnarsson lesa upp úr skáldsögu sinni Punktur, punktur, komma, strik og var með harðsperrur í ýmsum vöðvum eftir hláturskastið sem sú uppákoma olli.

Áttu þér uppáhalds barnabók?
Án vafa er það Mómó eftir Michael Ende í þýðingu Jórunnar Sigurðardóttur. Þessi saga er metfé sem á erindi til allra aldurshópa. Auðvitað ætti ekkert barn að vera án bóka eftir Astrid Lindgren, Tove Janson og Guðrúnu Helgadóttur og svo er Sagan hans Hjalta litla eftir Stefán Jónsson sígild. Nýlega fór ég að glugga í bækur eftir David Walliams sem skrifar stórkemmtilegar fabúlur fyrir börn. Ég byrjaði snemma að lesa fullorðinsbækur. Ég fann ekki margar barnabækur sem mér þótti nokkurt púður í og hljóp því hratt yfir þær sem stóðu mér til boða. Andrés Önd á dönsku var blað sem keypt var á mínu bernskuheimili og það var mikil synd fyrir dönskunám þegar byrjað var að þýða Andrés á íslensku.

Hvað einkennir lestrarvenjur þínar?
Ég varð snemma læs og var með nefið ofan í bók alla daga en mér fannst líka gott þegar mamma eða pabbi eða systir mín lásu fyrir mig. Mér þykir jafn gaman að lesa fyrir aðra og láta lesa fyrir mig. En ég get lesið hvar sem er. Þó er sérlega gott að sitja og lesa í rökkrinu með aðeins einn leslampa og hlusta á góða tónlist með. Eins er gott að sofna frá bók, hafa bók meðferðis á alla staði sem ég gæti þurft að bíða eftir afgreiðslu. Hafa alltaf bók við höndina til að glugga í. Vera með margar í takinu og þá fer það eftir skapinu og hugsanlegri þörf fyrir að skipta um skap, hvaða bók maður grípur. Svo eru hljóðbækur hið mesta þarfaþing þegar vinna þarf einhæf, andlaus og leiðinleg störf. Að reita illgresi úti í beði og hlusta á góða hljóðbók er dásamleg tilfinning.

Áttu þér uppáhaldshöfund?
Ákaflega erfitt að gera upp á milli þeirra. Ætli ég verði ekki samt að nefna Terry Pratchett og Douglas Adams. En ég hef alltaf haldið upp á Steinunni Sigurðardóttur, Þórarin Eldjárn og Pétur Gunnarsson. Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar elska ég. Birtingur eftir Voltaire, Góði Dátinn Svejk og helstu skáldsögur Laxness eru í uppáhaldi. Margaret Atwood er líka á lista yfir fantagóða höfunda.

En hafa einhverjar bækur haft varanleg áhrif á þig?
Margar bækur. 1984 og Animal Farm eftir Orwell eru meðal bóka sem breyttu hugsanahætti mínum. Bókin Og ég skal hreyfa jörðina eftir snillinginn Jón Þorvarðarson er alltaf uppi við heima hjá mér. Vetrarbörn eftir D. Trier Mörch varð mér í rauninni til lífs á sínum tíma. Hin svokallaða Fyndna kynslóð olli byltingu hjá mér og breytti miklu um það hvernig ég tel að skrifa eigi bók. Svo verð ég að segja að þegar ég las Biblíuna, alla eins og hún lagði sig, þá snarbreyttist hugsanagangurinn. Svo langar mig að bæta við bernskuminningu því þegar Björgvin Sighvatsson skólastjóri Barnaskólans á Ísafirði kenndi skrift og las um leið fyrir okkur Bláskjá eftir Franz Hoffman og fleiri sögur og ljóð sem vöktu djúpar tilfinningar hjá mér. Við áttum að skrifa með blekpenna, en mín bók var alsett táraslettum.

Að lokum Hanna Lára, hversu miklu máli skiptir bóklestur fyrir mannkynið?
Það er staðreynd að lestur gerir heilanum gott. Bókalaust heimili er fátækt og bókalaust barn er hálfgerður munaðarleysingi. Ég ólst upp við það að bækur voru mesta og besta tómstundagamanið og ég ól mín börn upp við slíkt líka. Sem kennari herja ég á nemendur að lesa meira hvort sem það hefur nú einhver áhrif eða ekki. Bækur HAFA breytt heiminum og munu halda áfram að gera það.