5.6 C
Selfoss
Home Fréttir X-D fyrir eldri borgara

X-D fyrir eldri borgara

0
X-D fyrir eldri borgara
Ari B. Thorarensen.

Undanfarið hafa málefni aldraðra verið heilmikið til umræðu. Frá því ríkið lokaði Kumbaravogi hefur sárlega vantað hjúkrunarrými. Hönnun nýs hjúkrunarheimilis fyrir 60 einstaklinga skal vera klár fyrir útboð 1. september nk. Mun það standa við hlið HSU á Selfossi, og er kostnaður sveitarfélagsins 16% af byggingarkostnaði, um 300 milljónir og er það stór áfangi fyrir okkur að hafa landað þessum rúmum. Einnig er ég stoltur af að við fórum ekki sömu leið og mörg sveitarfélög, þ.e. að byggja hjúkrunarheimili og leigja ríkinu sem hefur farið mjög illa með fjárhag þeirra sveitarfélaga.

Við rekum dagdvölina Vinaminni og er sú þjónusta til mikilla fyrirmyndar. Ég fór eitt sinn á fund hjá Alzheimersamtökunum á Íslandi þar sem okkar Vinaminni var hrósað í hástert og gladdi það mig mjög að heyra að við séum að gera vel. Við höfum bætt verulega í heimaþjónustu, 2016 voru 221 heimili með 326 heimilismenn sem fengu félagslega heimaþjónustu. Heimilin voru 241 með 388 heimilismenn 2017. Nú veitum við félagslega heimaþjónustu á morgnana um helgar en fyrir buðum við þjónustu að degi til og á kvöldin, alla daga ársins, allsstaðar í sveitarfélaginu. Verulega var aukið við akstursþjónustu með leigubílum til að mæta ólíkum þörfum eldri borgara. Þetta er til fyrirmyndar og státa ekki mörg sveitarfélög af svo mikilli þjónustu við eldri borgara.

Í sumar opnar nýtt húsnæði fyrir Árblik, dagdvöl aldraða, sem rúmar 20 einstaklinga, en í dag er pláss fyrir 11. Við flutning dagdvalar fjölgar um eina hjónaíbúð í Grænumörkinni. Félagsaðstaða mun stækka úr 250 fm í 470 fm og verður það glæsilegur áfangi. Á Eyrarbakka og Stokkseyri þarf að bæta húsakost félagsstarfs, en þar leigjum við húsnæði og er það á stefnuskránni að bæta úr því.

Á kjörtímabilinu var stofnað öldungaráð skipað fulltrúum félaga eldri borgara ásamt bæjarfulltrúum. Öldungaráð er góður vettvangur fyrir hópinn að koma skoðunum á framfæri. Nýverið ályktaði það um að auka afslætti af fasteignagjöldum elli- og örorkulífeyrisþega og var ályktuninni vísað til fjárhagsáætlunargerðar. Ekkert skeður af sjálfu sér og halda þarf vel á spilunum. Ef okkur hlotnast að stýra sveitarfélaginu áfram verður tekjuviðmiðum breytt til hagsbóta fyrir þennan hóp. Áfram X-D

 

Ari B. Thorarensen, formaður félagsmálanefndar Árborgar.