6.7 C
Selfoss

Fjallað um upphaf selfysskra bókmennta í annarri bókmenntagöngu Bókabæjanna

Vinsælast

Önnur bókmenntaganga Bókabæjanna á liðnum vetri fór fram á síðasta vetrardegi 18. apríl sem hluti af Vori í Árborg. Sú fyrri var farin á Eyrabakka 8. október síðastliðinn þar sem Magnús Karel Hannesson leiðsagði. Að þessu sinni var gengið um miðbæ Selfoss undir leiðsögn Gunnlaugs Bjarnasonar.

Gunnlaugur lagði út af selfysskum bókmenntum sem olnbogabarni í íslenskri bókmenntasögu og hóf gönguna við anddyri bókasafnsins á því að draga upp mynd af dæmigerðu þorpi úr skáldverki Charles Dickens. Þaðan var gengið að Ölfusárbrú og lesið vígslukvæði Hannesar Hafstein frá 8. september 1891 sem er mikil hylling á hugviti mannsins og framförum. Fullyrti Gunnlaugur að í kvæðinu megi finna upphaf selfysskra bókmennta. Þá var gengið upp með ánni og að Jórustökksstaðnum og einnig sögð sagan í fyrsta hluta Íslandsklukku Halldórs Laxness þegar móðir Jóns Hreggviðssonar kemur að ferjustaðnum. Tengdi Gunnlaugur þá frásögn skemmtilega við Hinn guðdómlega gleðileik Dantes. Þá var einnig farið í Tryggvagarð, að Bókakaffinu og því sem Gunnlaugur kallaði Davíðshús og hýsir nú farfuglaheimili. Að lokum var stefnan aftur tekin á bakka Ölfusár og endað í Fagurgerði. Góð mæting, gott veður og góð leiðsögn einkenndi þessa göngu og má minna áhugasama á að þriðja ganga Bókabæjann verður í Þorlákshöfn í lok maí undir stjórn Hannesar Stefánssonar.

Nýjar fréttir