6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Söngperlur í Skyrgerðinni í Hveragerði

Söngperlur í Skyrgerðinni í Hveragerði

0
Söngperlur í Skyrgerðinni í Hveragerði
Skyrgerðin í Hveragerði.
Bergljót og Spilapúkarnir.

Á morgun laugardaginn 14. apríl kl. 20:30 munu „Bergljót og Spilapúkarnir“ halda tónleika í Skyrgerðinni í Hveragerði. Tríóið skipa Leifur Gunnarsson kontrabassa, Guðmundur Eiríksson píanó og söngkonan Bergljót Arnalds.

Leifur og Guðmundur er báðir fæddir og uppaldir Selfyssingar og eiga ekki langt að sækja tónlistaráhugann, því afi og nafni Leifs var meðlimur í fyrstu „súpergrúppu” Suðurlands, „Hljómsveit Óskars Guðmundssonar”, og afi og nafni Guðmundar var bóndi í Flóanum og söng oft hástöfum við bústörfin. Þeir fóru líka báðir til Danmerkur í framhaldsnám í tónlist og hafa síðan unnið við hljóðfæraleik, tónlistarkennslu o.fl.

Leifur lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla FÍH vorið 2009. Síðan hélt hann til Kaupmannahafnar og útskrifaðist í kontrabassaleik frá Rytmíska konservatoríinu í Kaupmannahöfn vorið 2013. Guðmundur bjó lengi í Danmörku og lék m.a. með dönsku hljómsveitinni „The Rocking Ghosts“ („Oh, what a kiss“), um árabil.

Bergljót Arnalds er fjölhæf listakona og hefur starfað sem leikkona auk þess að hafa samið hinar geysivinsælar barnabækur og tölvuleiki um Stafakarlana og Talnapúkann. Hún hefur vakið athygli fyrir fallegan söng og lagasmíðar og gaf nýlega út diskinn „Heart Beat“ með eigin lögum.

Á tónleikunum mun tríóið flytja lög af diskinum en einnig verða flutt þekkt lög frá m.a. Edit Piaf, Ellu Fitzgerald, Ellý Vilhjálms og ýmis lög úr söngleikjum o.fl. Tríóið lofar skemmtilegri kvöldstund með ljúfum tónum. Miðasala er á tix.is eða við innganginn.