-2.1 C
Selfoss
Home Fréttir Maður á ekki að eyða tíma sínum í leiðinlegar bækur

Maður á ekki að eyða tíma sínum í leiðinlegar bækur

0
Maður á ekki að eyða tíma sínum í leiðinlegar bækur
Gunnlaugur Bjarnason.

Gunnlaugur Bjarnason, 25 ára gamall íslenskufræðingur í MA-námi við Háskóla Íslands, er lestrarhestur Dagskrárinnar. Hann er alinn upp á Selfossi en búsettur í Reykjavík, kvæntur Kristínu Lilju Th. Björnsdóttur verðandi upplýsingafræðingi og eiga þau saman tvo drengi.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég hef þann slæma ósið þegar kemur að bókum að ég les yfirleitt nokkrar í einu. Þessa dagana er ég t.d. með níu bækur á náttborðinu og ég les örlítið í hverri bók þegar tími og færi gefst. Ef ég á að nefna bara eina af þeim þá er það bókin Hjaltlandsljóð sem er ljóðasafn hjaltlenskra ljóðskálda í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessum litlu eyjum hérna rétt fyrir neðan okkur og langar mikið að fara til bæði Hjaltlandseyja og Orkneyja einn daginn. Eina bókina erum við hjónin að lesa saman, Atómstöðina eftir Halldór Laxness. Sá lestur fer þannig fram að ég les upp úr bókinni á meðan Kristín sinnir brjóstagjöfinni fyrir yngri son okkar.

Áttu þér uppáhalds barnabók?
Þegar ég var yngri las ég helst ekkert annað en Andrés Önd sem ég geri reyndar ennþá í dag, í töluvert minna mæli þó. Núna um daginn endurnýjaði ég kynni mín við bókina Sjóferðina miklu eftir Guðmund Björgvinsson þegar ég las hana fyrir eldri son minn. Sú bók var lesin upp til agna þegar ég var lítill enda er sagan algjörlega frábær og ég get mælt með þessari bók fyrir börn á öllum aldri.

Manstu eftir bók sem var lesin fyrir þig sem barn?
Ég man ekki eftir neinni bók svona í svipinn en það er mér mjög minnisstætt þegar pabbi minn sagði mér söguna af landnámi Ingólfs Arnarsonar. Ég held ég hafi verið eitthvað um 8 ára og við vorum að keyra framhjá Hjörleifshöfða og ég held ég hafi spurt út í það hvaða Hjörleifur þetta væri, sem varð til þess að pabbi sagði mér söguna, svona í grófum dráttum og ég sagði svo öllum skólafélögum mínum. Ég veit ekki hvort þeir hafi verið jafn hrifnir og ég enda held ég að ég hafi verið nokkuð skrítið barn.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég get svosem lesið hvað sem er svo lengi sem það er vel skrifað eða þá að höfundurinn hafi frá einhverju að segja. Annars fer það bara eftir því hvernig ég er stemmdur hvað mig langar að lesa hverju sinni.

En hvað segirðu um lestrarvenjur þínar?
Já eins og ég svaraði í fyrstu spurningunni þá les ég alltaf nokkrar bækur í einu og á voðalega erfitt með að lesa bara eina bók í einu. Mér finnst líka allt í lagi að gefast upp á bók ef mér finnst hún leiðinleg enda á maður ekkert að eyða tíma sínum í leiðinlegar bækur. Ég les mikið þegar ég er í bíl eða strætó og er alltaf með bók á mér, bara svona til vonar og vara.

Einhver uppáhldshöfundur sem þú vilt nefna?
Svava Jakobsdóttir er minn uppáhalds íslenski höfundur núna og bækurnar hennar eru með því besta af íslenskum bókmenntum 20. aldar enda var hún óhrædd við að snerta á ýmsum málefnum sem aðrir rithöfundur þorðu ekki að færa í orð. Síðan eru rússneskir höfundar í miklu uppáhaldi en það má sjálfsagt rekja til þess að ég alltaf haft mikinn áhuga á Rússlandi og hef lengi ætlað að fara þangað með pabba mínum sem ég er handviss um að við gerum einn daginn.

Er til bókmenntaverk sem hefur haft djúpstæð áhrif á þig?
Þegar ég var í enskutímum í Fjölbrautaskóla Suðurlands lét kennarinn okkur eitt sinn lesa það sem heitir á ensku War Poetry eða stríðsljóð. Þetta voru ljóð ort á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar. Ég held að ég hafi verið eitthvað um 18 ára þegar við lásum þessi ljóð og ég man að þau höfðu mikil áhrif á mig þá og ég held að ég hafi þá hugsað í fyrsta sinn um ömurleika stríðs. Það var sérstaklega ljóðið Dulce et Decorum Est eftir breska skáldið Wilfred Owen sem höfðaði til mín þar sem hann yrkir um stríðsherrana sem senda hermenn út í opinn dauðann og ljúga að þeim að það sé virðingarvert að deyja fyrir föðurlandið. Ljóðið rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las ljóð Elíasar Marar, Stríð, núna fyrir skemmstu sem lýkur á þessum orðum: „Því ýmsir ráða með því að sitja og segja / sínum mönnum að ganga á hólm til að deyja.“

En að lokum Gunnlaugur, skipta bækur einhverju máli?
Já ég myndi nú segja að bækur skipti okkur öll máli. Þær skipta okkur samt ekkert meira eða minna máli en önnur afþreying en þetta er samt sem áður mjög gamall miðill og er því einskonar tenging við fortíðina en mér finnst við þurfa að leggja meiri rækt við fortíðina í okkur sjálfum. Þar að auki er þetta aðgengilegasti miðillinn, það þarf enga nettengingu, tölvur eða tækni til að lesa og njóta (flestra) bóka, svona eftir að þær eru komnar úr prentsmiðjunni.