12.8 C
Selfoss

Besti árangur Selfyssinga frá upphafi og Teitur markahæstur

Vinsælast

Lokaumferð Olísdeildar karla í handknattleik fór fram í gærkvöldi. Fyrir leikina voru þrjú lið efst og jöfn með 32 stig þ.e. ÍBV, Selfoss og FH. Úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndum leiks Fram og ÍBV er Eyjamenn náðu að sigra með einu marki í blálokin. Það dugði þeim til að vinna deildarmeistaratitilinn. Öll efstu liðin unnu leiki sína og enduðu með 34 stig. ÍBV vann titilinn á hagstæðustu markatölu í innbirðisviðureignum, Selfoss varð í öðru sæti og FH í því þriðja.

Selfoss vann Víking örugglega í Vallaskóla 37-26. FH vann einnig Stjörnuna örugglega 26-38. ÍBV vann svo Fram með einu marki 33-34. Þessi úrslit þýddu að öll liðin þrjú enduðu með 34 stig.

Leikur Selfyssinga og Víkinga var jafn til að byrja með en upp úr miðjum fyrri hálfleik sigu Selfyssingar fram úr og voru yfir í hálfleik 17-12. Í síðari hálfleik var aldrei spurning hvernig leikurinn myndi enda. Selfyssingar voru lengst af 10-12 mörkum yfir og enduð með ellefu marka sigri 37-26. Árni Steinn var markahæstur með 8, mörk, Teitur Örn og Haukur skoruðu 6 mörk hvor, Hergeir 4, Richard Sæþór, Elvar Örn og Atli Ævar 3 mörk hver, Guðjón Baldur 2 og Eyvindur Hrannar og Einar 1 mark hvor.

Þessi árangur þ.e. að enda í örðu sæti deildarkeppninnar er besti árangur Selfyssinga í boltaíþróttum frá upphafi. Gullaldarliðið svokallaða varð í 3. sæti árin 1992 og 1994 og árið 1993 í 5. sæti. Í fyrra varð lið Selfoss í 5. sæti í Olísdeildinni.

Framundan er úrslitakeppnin en þar mætir Selfoss Stjörnunni. ÍBV mætir ÍR, FH mætir Aftureldingu og Valur mætir Haukum.

Teitur Örn Einarsson, leikmaður Selfoss, endaði sem markahæsti leikmaður deildarinnar með 160 mörk. Á eftir honum kom Kristján Örn Kristjánsson, Fjölni, með 154 mörk, Einar Rafn Eiðsson, FH, með 138 mörk og Hákon Daði Styrmisson, Haukum, og Óðinn Þór Ríkharðsson, FH, með 137 mörk.

Nýjar fréttir