7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Ljóðaslamm og margmála ljóðakvöld í Listasafninu í kvöld

Ljóðaslamm og margmála ljóðakvöld í Listasafninu í kvöld

0
Ljóðaslamm og margmála ljóðakvöld í Listasafninu í kvöld
Listasafn Árnesinga Hveragerði.

Á alþjóðlegum degi ljóðsins efna Bókabæirnir austanfjalls og Gullkistan á Laugarvatni til Margmála ljóðakvölds í samvinnu við Listasafn Árnesinga í kvöld, miðvikudaginn 21. mars. Dagskráin hefst kl. 20.00 en húsið opnar kl. 19.30.

Heiti dagskrárinnar vísar til þess að ljóð verða flutt á mörgum tungumálum en jafnframt fylgir íslensk þýðing eða endursögn. Flytjendur ljóðanna er fólk sem hefur flust til Íslands til lengri eða skemmri dvalar. Tilgangurinn er fyrst og fremst að virkja ljóðið, efla og þroska samband okkar við það og að fólk komi saman af ólíku þjóðerni og deili með sér skáldskap og sameiginlegri reynslu. Flutt verða ljóð á ensku, frönsku, sænsku og sýrlenskri tungu. Auk þess verður alþjóðlega fyrirbærið LJÓÐASLAMM kynnt af slammbassadornum Jóni Magnúsi Arnarsyni en hann er einn af forsprökkum Tjarnarslammsins auk þess að hafa komið fram á alþjóðlegum slammhátíðum víða um Evrópu og síðast á Indlandi. Hann mun flytja ljóð á íslensku og ensku og vera til viðtals um slamm og slammkeppnir ef áhugi er á því.

Umsjónarmenn dagskrárinnar eru Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Özur Snorrason.

Í sölum listasafnsins standa nú yfir tvær myndlistarsýningar: Undirstaða og uppspretta sem eru valin verk úr eigu safnsins og Þjórsá Borghildar Óskarsdóttur sem byggir á margra áratuga rannsókn Borghildur á sambúð manns og náttúru við þessa lengstu á Íslands.