2.3 C
Selfoss

Óhagkvæmar virkjanir víkja fyrir vindmyllum

Vinsælast

Vegna lækkandi kostnaðar í vindorkutækni er orðið ólíklegra að sumar þær jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir, sem nú eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar, komi til með að rísa. Í mörgum tilvikum er orðið hagkvæmara að reisa vindmyllugarða og nýta samspil vindorku og vatnsafls með miðlun.

Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur, MBA og sérfræðingur í orkumálum.

Vafalítið er líka ódýrara að nýta íslenska vindorku fremur en að reisa þær litlu vatnsaflsvirkjanir sem nú eru hér í undirbúningi. Í þessari grein er athyglinni beint að þeim virkjunarkostum sem einkum er horft til í dag og þeir kostir skoðaðir í samhengi við vindmyllur.

Dýrar smávirkjanir
Meðal virkjana sem áhugi er á að reisa hér á Íslandi á næstu árum eru nokkrar litlar vatnsaflsvirkjanir, þ.e. með afl undir 10 MW. Þar má nefna 9,9 MW Brúarvirkjun á Suðurlandi, 9,8 MW Svartárvirkjun á Norðurlandi, 9,3 MW virkjun í Hverfisfljóti á Suðausturlandi og 5,5 MW Hólsvirkjun á Norðurlandi.

Þá má nefna Hvalárvirkjun á Ströndum, sem til stendur að verði 55 MW og er því ekki smávirkjun en þó töluvert minni en t.a.m. stóru vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar. Hvalárvirkjun virðist varla geta verið mjög hagkvæmur virkjunarkostur, enda bæði nokkuð dýr virkjun og mjög dýrt að tengja hana flutningskerfinu. Til að tryggja betra raforkuöryggi á Vestfjörðum væri líklega mun ódýrara að reisa þar vindmyllugarð í nágrenni við núverandi flutningskerfi.

Einn vindmyllugarður í stað fjögurra vatnsaflsvirkjana?
Að öllu samanteknu er virkjun íslenskrar vindorku líklega bæði ódýrari og skynsamlegri kostur en framangreindar smávirkjanir. Umræddar fjórar smávirkjanir yrðu samtals um 35 MW. Sumar þeirra gætu skilað nokkuð jafnri framleiðslu, meðan t.a.m. Hverfisfljóts­virkjun mun væntanlega verða með litla framleiðslu yfir veturinn; þar stendur til að virkja jökulá með svo til engu miðlunarlóni.

Fossar í gljúfri Hverfisfljóts
Veruleg og varanleg röskun fylgir sennilega flestum þessum litlu vatnsaflsvirkjunum. Þannig myndi t.a.m. Hverfisfljótsvirkjun valda því að fossaröðin í ósnertu og geysifallegu gljúfrinu ofan Eldhraunsins í Fljótshverfi nánast hyrfi (a.m.k. hluta ársins), gera þyrfti að- og frárennslisskurði og leggja rafstreng langa leið að tengivirki. Umhverfisáhrifin og röskun á lítt snortinni náttúru yrði því veruleg og kostnaðurinn sömuleiðis.

Til að skila ámóta raforkuframleiðslu eins og þessar framangreindu smávirkjanir myndu gera, þyrfti sennilega einungis einn fremur nettan vindmyllugarð. Kostnaðurinn við hann yrði sennilega nokkuð undir tíu milljörðum króna. Kostnaður við litlu vatnsaflsvirkjanirnar fjórar er ekki opinber, en verður varla undir tólf milljörðum króna og mögulega nokkru meiri. Nýting vindorku yrði því ódýrari kostur. Um leið væri vindmyllugarðurinn sennilega að flestra mati umhverfisvænni kostur en þessar fjórar vatnsaflsvirkjanir.

Hefðbundnar stórar virkjanir eru einnig dýrar
Að auki áformar Landsvirkjun nokkuð stórar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, auk þess t.a.m. að nýta útfall Hágöngulóns á hálendinu í formi s.k. Skrokkölduvirkjunar. Síðastnefndi virkjunarkosturinn er reyndar fremur lítil virkjun og þar með ekki mjög mikilvæg. Þess vegna má gera ráð fyrir verulegri andstöðu við að ráðast í þá framkvæmd þarna á íslenska hálendinu miðju.

Í jarðvarma áformar Landsvirkjun stækkun Kröfluvirkjunar og rannsóknir standa yfir á vegum HS Orku á virkjun í Eldvörpum á Reykjanesi. Vegna kostnaðar munu þeir jarðvarmakostir þó mögulega eiga erfitt með að keppa við vindmyllugarðana sem hér hljóta að rísa á komandi árum.

Kostnaður vindorku er kominn niður í allt að 30 USD/MWst.
Kostnaður nýrra vindmyllugarða á landi hefur farið hratt lækkandi. Á svæðum þar sem vindaðstæður eru hagkvæmar er kostnaðurinn kominn niður í um 30 USD/MWst og stefnir í að lækka enn meira á komandi árum. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því að hver og einn einasti af þeim virkjunarkostum sem nú er horft til í nýtingarflokki Rammaáætlunar er dýrari, sbr. nýleg greining sem unnin var á vegum Samorku.

Samkvæmt greiningunni, sem birt er á vef Samorku, má vænta þess að kostnaður vegna hverrar framleiddrar megavattstundar í nýrri jarðhitavirkjun verði ekki undir 35 USD/MWst. Og uppgefinn kostnaður vegna virkjunar í Eldvörpum er t.a.m. sagður um 45 USD/MWst í umræddri greiningu. Þó svo þessar tölur séu háðar margvíslegri óvissu, er þetta vísbending um að jarðvarmavirkjanir hér muni senn eiga erfitt með að keppa við raforkuframleiðslu fyrir tilstilli vindorku.

Vindorkan orðin ódýrust
Í ljósi þess að nú er sennilega unnt að virkja nokkur hundruð MW af íslenskri vindorku þar sem kostnaðurinn nemur á bilinu 30–40 USD/MWst, er bersýnilegt að það hlýtur að vera orðið óáhugaverðara að ráðast hér í nýjar vatnsafls- eða jarðvarmavirkjanir. Kostnaðurinn í vindorkutækninni er reyndar orðinn svo hógvær að nú er álfyrirtækið Alcoa farið að semja um kaup á vindorku í Noregi. Og nú hefur norska álfyrirtækið Hydro líka gert samskonar samning, þ.e. um kaup á miklu magni af raforku frá vindmyllugarði. Í því tilviki er um að ræða sænskt vindorkuverkefni.

Kostnaður vindorku fer lækkandi um allan heim
Vindorkan er sem sagt orðin ódýr og samkeppnishæf. Vegna einsleitni og einangrunar íslenska raforkumarkaðarins eru möguleikar í vindorku hér að vísu ekki þeir sömu og í Skandínavíu. Engu að síður er líklegt að í ýmsum tilvikum sé ódýrast og skynsamlegast að nýta íslenskan vind fremur en meiri jarðvarma eða jafnvel vatnsafl. Þess vegna má gera ráð fyrir að á komandi árum verði það lykilatriði í þróun íslenska raforkukerfisins að huga að því hvernig megi með sem hagkvæmustum hætti þróa samspil vindorku og miðlunar vatnsaflsvirkjana.

Um leið er mögulegt að einhver stóriðjufyrirtæki hér sjái senn áhugaverða möguleika í því að reyna að losna aðeins undan sterkri samningsstöðu Landsvirkjunar með því að reisa hér vindmyllugarða. Vegna smæðar íslenska raforkumarkaðarins er þó líklegast að íslensk vindorka verði fyrst og fremst nýtt til að mæta vaxandi raforkunotkun almennings og venjulegs atvinnulífs. Enda býður vindorkan upp á þann möguleika að auka aflið í raforkukerfinu jafnt og þétt í rólegum skrefum. Þar má mögulega sjá fyrir sér að á nokkurra ára fresti verði bætt um 40–50 MW af vindafli í kerfið. Og það mun vel að merkja ekki þurfa nema um tíu til tólf vindmyllur til að ná því afli.

Sláandi lækkun á kostnaði
Að auki má hafa í huga að flest bendir til þess að kostnaður vindorkutækninnar haldi áfram að lækka umtalsvert á næstu árum, þ.a. kostnaður framleiddrar MWst fari vel undir 30 USD. Í nýrri skýrslu bandaríska National Renewable Energy Laboratory (NREL) segir meira að segja, að á landsvæðum með sérlega hagstæð vindskilyrði muni þessi kostnaður geta farið allt niður í 20 USD/MWst. Sem er miklu ódýrara en ráðgert er að nýjar íslenskar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir geti skilað. Þetta er til marks um að líklega eru talsverðar breytingar framundan í áherslum íslenskra raforkufyrirtækja. Sem hafa flest, að frátalinni Landsvirkjun, farið sér mjög hægt í að skoða það af alvöru að nýta vindinn.

Höfundur vinnur að þróun vindmylluverkefna á Íslandi í samstarfi við evrópskt vindorkufyrirtæki.

Nýjar fréttir