2.8 C
Selfoss

Bergheimar fá Grænfána

Vinsælast

Leikskólinn Bergheimar í Þorlákshöfn er leikskóli á Grænni grein og hefur verið það síðan 2014 en þá var stofnuð umhverfisnefnd við skólann. Í umhverfisnefnd á hverjum tíma eru fulltrúar starfsfólks, nemenda og foreldra. Í desember sl. fengum við afhentan annan fánann okkar frá því að við ákváðum að verða leikskóli á Grænni grein.

Aðdragandi að afhendingu Grænfána er langur og að mörgu að hyggja en ákveðið var á haustmánuðum 2015 að sækja um Grænfána út á verkefnið Lýðheilsa. Lýðheilsa eins og Landvernd útskýrir hana er: Hvernig er heilsa okkar í skólanum? Hreyfum við okkur nóg? Hvað getum við gert til að hreyfa okkur meira í daglegu lífi? Borðum við hollan mat? Líður okkur vel í skólanum og daglega lífinu? Erum við góð hvert við annað? Erum við dugleg að vera úti í náttúrunni? Hvaða áhrif hefur lífstíll okkar á umhverfið? Þegar skólinn hefur farið í gengum ákveðin skref í undirbúningi er hægt að sækja um fánann. Í byrjun nóvember sl. kom fulltrúi Landverndar og tók út hvort við uppfylltum skilyrði fyrir fánanum og auðvitað gerðum við það og eins og fyrr segir var hann afhentur í desember við hátíðlega athöfn. Yngsti og elsti nemandi, sem mætt voru þann daginn, tóku við fánanum og aðstoðuðu við að flagga honum.

Árið 2015 fengum við fyrri fánann okkar út á verkefnið Flokkun úrgangs og ætlum við að halda ótrauð áfram, í vetur verður hafin vinna að markmiðum verkefnisins Átthagar. Erum við gríðarlega stolt af hversu vel þessi vinna hefur gengið hjá okkur. Þeir sem vilja fræðast meira um Grænfána Landverndar geta farið inn á graenfaninn.landvernd.is.

F.h. starfsfólks og barna í leikskólanum Bergheimum
Elsa Þorgilsdóttir aðstoðarleikskólastjóri

Random Image

Nýjar fréttir