11.7 C
Selfoss

Íbúafundur um hönnun Sigtúnsgarðs á Selfossi

Vinsælast

Fyrr í vetur bauð Sveitarfélagið Árborg út hönnun útivistarsvæða miðsvæðis á Selfossi. Um er að ræða Sigtúnsgarð, Tryggvagarð og leikvöllinn við Heiðarveg. Lægsta tilboð í hönnunina átti Hermann Ólafsson, landslagsarkitekt hjá Landhönnun slf.

Undirbúningsvinna vegna verkefnisins er hafin og hefur samráðshópur sem skipaður er fulltrúum sveitarfélagsins, hverfisráðs Selfoss, ungmennaráðs og öldungaráðs Árborgar fundað einu sinni með Hermanni og lagt drög að opnum íbúafundi sem haldinn verður n.k. laugardag, 17. febrúar á Hótel Selfossi í fundarsal á 2. hæð. Fundurinn mun standa frá kl. 13 til kl. 15. Þar gefst áhugsömum færi á að koma á framfæri sínum hugmyndum um skipulag svæðanna. Unnið verður í nokkrum hópum eftir svonefndu þjóðfundarskipulagi (heimskaffi) og tekið við öllum hugmyndum sem fram koma. Sérstök áhersla verður á að fá fram hugmyndir barna og verður hópastarf fyrir þau.

Í framhaldi af íbúafundinum mun verða unnið úr þeim hugmyndum sem fram koma, auk þess verður fundað sérstaklega með þeim aðilum sem standa fyrir bæjarhátíðum og öðrum viðburðum í Sigtúnsgarði.

Íbúar eru hvattir til að mæta og taka þátt í að hafa áhrif á það hvernig útivistarsvæði verða byggð upp miðsvæðis á Selfossi fyrir íbúa og gesti.

F.h. Sveitarfélagsins Árborgar, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri.

Nýjar fréttir