6 C
Selfoss

Náms- og starfsráðgafar FSu á ferð um Suðurland

Vinsælast

Janúarmánuður er liðinn. Framundan er febrúar með hækkandi sól og nýjum tækifærum. Í febrúar verða líka náms- og starfsráðgjafar í FSu á ferð á flugi um Suðurland.

Upptökusvæði Fjölbrautaskóla Suðurlands er stórt, frá Lómagnúpi að Kambabrún eins og oft er talað um á hátíðarstundum. Reyndar koma nemendur skólans víðar að og óhætt að segja að allt landið liggi undir.
En af hverju eru náms- og starfsráðgjafar á ferð og flugi? Jú tilefnið er ærið. Kynningar fyrir grunnskólanemendur eru í farteskinu.
Á Suðurlandi eru 15 grunnskólar heimsóttir í febrúar og námsframboð og inntökuskilyrði í FSu eru kynnt fyrir nemendum. Þessar heimsóknir gefa nemendum tækifæri til þess að fá upplýsingar um FSu frá fyrstu hendi. Þá geta nemendur spurt og velta upp hugleyðingum um framtíðarnám. Í heimsóknunum eru nemendur FSu með í för og kynna félagslíf skólans. Á þessum kynningum sjá væntanlegir nemendur FSu oft í fyrsta sinn náms- og starfsráðgjafa FSu sem er mikilvægt þegar þeir mæta svo í skólann og spurningar vakna.

Þetta árið hefur áherslum í kynningunni aðeins verið breytt. Í fyrsta skipti bjóðum við bæði nemendum í 9. og 10. bekk uppá kynningu. Með því erum við að bregðast við óskum grunnskólaráðgjafa um að hefja kynningu á skólanum fyrr fyrir nemendur.

Framhaldsskólar landsins bjóða uppá fjölbreytt námsframboð. Frumskógur möguleika mæta 10. bekkingum við grunnskólalok. Það geta komið upp blendnar tilfinningar þegar kemur að þessum tímamótum. Hvað er í boði?, hvað þýða þessir möguleikar fyrir mig?, hvað svo? Af þeim ástæðum er mikilvægt fyrir nemendur grunnskólans að kynna sér vel það sem er í boði eftir að grunnskóla lýkur. Fjölbrautaskóli Suðurlands býður uppá þrettán iðn-og starfsnámsbrautir, stúdentsbraut bóknám með vali um fimm áherslulínur, Stúdentsbraut starfsnám með sex áherslulínum að loknu iðn-og starfnámi. Auk þess býður skólinn uppá Starfsbraut og Grunnmenntabrú.

Þetta er metnaðarfullt námsframboð, hannað til þess að reyna að koma til móts við áhugasvið sem flestra nemenda hvert sem þeir stefna eftir að framhaldsskóla lýkur, út í atvinnulífið eða í frekara nám.

Náms- og starfsráðgjafar Fjölbrautaskóla Suðurlands hafa áratuga reynslu af ráðgjöf við nemendur. Okkur langar með þessum pistli til þess að segja frá því sem framundan er í kynningarmálum í FSu og ekki síður til þess að minna á þjónustu okkar ef spurningar vakna um námsval eða námsleiðir.

Að þessu sögðu viljum við benda á „Opið hús“ sem verður í FSu 6. mars kl. 17–19. Þar gefst foreldrum tækifæri til þess að mæta með börnum sínum til þess að skoða skólann og kynna sér námsframboð.

Velkomin í FSu!

Bestu kveðjur
Agnes, Anna Fríða og Bjarney, náms- og starfsráðgjafar Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Nýjar fréttir